132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[15:45]
Hlusta

Einar Már Sigurðarson (Sf):

Frú forseti. Í þessari 2. umr. um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2005 er eðlilegt að umræðan fari vítt og breitt, jafnvel í umræðu um almenn efnahagsmál eins og hér hefur nokkuð borið á. Hins vegar er eðlilegt að við látum ýmislegt bíða til 3. umr. af þeirri einföldu ástæðu að í dag eru t.d. aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin vonandi að ganga frá samkomulagi og það er óhjákvæmilegt að gera ráð fyrir því að það geti haft einhver áhrif á frumvarpið sem hér liggur fyrir og þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur lagt fram. Það er a.m.k. ekki ólíklegt að þar gæti eitthvað komið inn.

Ég get endurtekið það sem ég hef sagt áður í umræðum um frumvarp til fjáraukalaga og um fjárlagafrumvarpið að ég tel það okkar helstu von til þess að tök náist á efnahagslífinu að aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin nái samkomulagi, þar sem aðilar vinnumarkaðarins hafa í raun mun meiri áhrif en ríkisstjórnin og að þeir komi vitinu fyrir ríkisstjórnina. Við vitum auðvitað hvernig umræðan um efnahagslífið hefur verið, þar hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar yfirleitt sungið þann sérkennilega söng að hér sé allt í lukkunnar velstandi og að ekkert þurfi að gera til þess að taka utan um þau mál og láta þau lenda á réttan hátt.

Þetta er hins vegar algjörlega í andstöðu við það sem aðilar vinnumarkaðarins hafa sagt og ég endurtek að ég bind vonir við það, eins og gerðist síðast þegar við vorum í svipuðu ástandi, að þessir aðilar komi vitinu fyrir ríkisstjórnina og aðstoði okkur við að tryggja mjúka lendingu í því ástandi sem við nú búum við.

Frú forseti. Það er ekki annað hægt en að taka undir það sem hér hefur komið fram varðandi frumvarp til fjáraukalaga og þær breytingartillögur sem komið hafa frá meiri hluta fjárlaganefndar. Það er með ólíkindum hversu illa gengur að fá ríkisstjórnarmeirihlutann og ríkisstjórnina sjálfa til þess að fara eftir þeim ágætu lögum sem fjárreiðulög ríkisins eru. Og þrátt fyrir það að hæstv. fjármálaráðherra hafi rifjað upp með okkur hér fyrr í haust að hann hafi átt sæti í þeirri ágætu nefnd sem samdi lögin virðist það ekki hafa nein áhrif á vinnubrögðin enn sem komið er a.m.k. En við vonum auðvitað það besta og gefum hæstv. fjármálaráðherra að sjálfsögðu tækifæri til þess að sýna það að ári að einhver meining hafi verið í allri þeirri vinnu sem fór í að semja fjárreiðulögin.

Frú forseti. Það er auðvitað dæmi um það mikla kæruleysi sem menn viðhafa hér við ríkisfjármálin að menn skuli fara svo gróflega á mis við þau trekk í trekk og nota fjáraukalög til þess að sópa upp ýmsu sem á heima í fjárlögum. En þetta virðist vera orðinn vani eða hluti af þeim leik að fegra fjárlagafrumvarpið og fjárlögin sjálf, að setja allt mögulegt sem á heima í fjárlögum inn í fjáraukalög. Við erum búin að fara margoft yfir þetta og gerðum reyndar alveg sérstaka úttekt á fjáraukalagaumræðunni árið 2003 en því miður hefur það engan árangur borið. Við verðum samt sem áður að halda áfram og vona að það miði í rétta átt þótt hægt fari, því að ekki er hægt að gefast upp, og það er hægt að segja að það hafi eitthvað miðað áfram, en asskoti er nú hægt farið.

Hið mikla innstreymi fjármagns í ríkissjóð leiðir auðvitað líka til kæruleysis, en það skapast m.a. af því að það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að menn eigi ekki fyrir reikningunum þegar þenslan er slík sem nú og skilar sér með stórauknum fjármunum í ríkissjóð. Hluti af kæruleysinu er auðvitað þegar skoðað er hve ótrúlega miklu skeikar í áætlunum og forsendum sem t.d. fjárlög fyrir árið 2005 byggja á. Í einföldum orðum er hægt að segja að allt sé á skjön, það standist ekki neitt, og ég hugsa að það sé langt síðan við höfum horft upp á jafnmikil frávik frá forsendum og við sjáum nú. En eins og ég sagði áðan og endurtek, þá held ég að nær sé að ræða þetta við 3. umr. vegna þess að þá sjáum við, ef samkomulag næst á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar, til hvaða ráða verður brugðið til þess að ná tökum á því ástandi sem við nú lifum við.

Frú forseti. Ég vil þó nefna örfá dæmi varðandi það hvernig þetta kæruleysi kemur fram. Því miður verð ég þó að byrja á að taka til baka orð sem ég lét falla við 1. umr. þegar ég tók Alþingi sérstaklega sem dæmi um það hvernig menn ættu að læra af fyrri mistökum. Eins og við munum flest var það þannig fyrir ári að í fjáraukalagafrumvarpinu var afgreidd 60% leiðrétting á framkvæmdum við Alþingishúsið. Ég hafði vonast til þess að menn hefðu lært af þessu og náð tökum á áætlunargerðinni og ég sá ekki annað í frumvarpi til fjáraukalaga en að nú væri málum þannig háttað að þrátt fyrir miklar framkvæmdir í sumar hefði náðst að stilla rétt af.

Því miður kemur það nú í ljós að lærdómurinn er mun minni en ég hélt, því að í fyrra voru það 60% en nú eru það 44%. Vissulega er munurinn minni en fyrr og er í rétta átt, en það tekur ansi mörg ár ef við eigum að ná að núllstilla þetta ef hraðinn er ekki meiri. Þetta vekur sérstaka athygli og væri fróðlegt ef einhver hefði skýringu á því hér við umræðurnar hvað það er sem veldur því að þessi 40%, eða 26,2 millj. kr. af áætlun sem var upp á 60 millj. kr., koma í ljós á þeim stutta tíma eftir að frumvarp til fjáraukalaga var lagt fram en áður en meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram tillöguna. Hvernig stendur á því að ekki var vitað um þetta þegar frumvarpið var lagt fram? Hver er skýringin á því að þessi tala kemur allt í einu í ljós á þessum örfáu vikum? Því ég trúi ekki að svo illa hafi verið fylgst með framkvæmdinni að þetta hafi komið mönnum algjörlega á óvart.

Annað sérkennilegt dæmi sem hér hefur verið minnst á og ég vil einnig vekja athygli á er styrkur til ágæts verkefnis — þetta tengist því ekkert hvers konar verkefni við erum að fjalla um — en það er styrkur til útgáfumála, þ.e. 15 millj. kr. til að styrkja gerð spænsk-íslenskrar orðabókar. Þetta er auðvitað mjög sérkennilegt hér inni í áliti meiri hluta fjárlaganefndar, en ég veit reyndar að tillagan er ættuð frá ríkisstjórninni, að á þeim þremur vikum sem eru liðnar frá því að frumvarp til fjáraukalaga kom fram sé kominn upp bráðavandi sem kalli á styrk til þessarar útgáfu. Ekki veit ég nákvæmlega hvaða gífurlegi vandi þetta er en væntanlega eru það einhver orðatiltæki á spænsku sem menn hafa lent í vandræðum með að þýða yfir á íslensku, einhver gífurlega mikilvæg orðatiltæki sem ekki þola neina bið, því að ekki er nú langt þar til við munum afgreiða fjárlög ársins 2006, þar sem þetta ætti augljóslega frekar heima í.

Frú forseti. Það eru fleiri mál sem hér er rétt að minnast á áður en ég fer yfir í að bera saman mismunandi meðhöndlun á stofnunum. En það virðist vera algjörlega tilviljunarkennt hvernig tekið er á málum, hvaða stofnun er unnið við og hvaða stofnun verður gert við næst, það er engin heildarsýn eða heildarvinnubrögð eða jafngildar reglur sem virðast vera í gangi.

Það er eitt mál sem ég tel klárlega eiga heima hér og er í tillögum meiri hluta fjárlaganefndar og ég vil vekja sérstaka athygli á en það er undir samgönguráðuneytinu. Þar er lagt til að 18 millj. kr. verði lagðar fram vegna athugunar á samgöngumiðstöð í Vatnsmýri og á Reykjavíkurflugvelli en á þessu ári er gert ráð fyrir að Reykjavíkurborg komi með jafnháa upphæð á móti þannig að samtals fari 36 millj. kr. í þetta mikilvæga verkefni. Þetta er auðvitað í samræmi við það samkomulag sem náðst hefur á milli samgönguyfirvalda og stjórnar Reykjavíkurborgar um að fara í þetta verk. Þetta var auðvitað ekki ákveðið fyrr en á þessu ári og ég geri ráð fyrir því að þær vikur sem liðið hafa frá því að frumvarpið kom fram hafi menn náð að fínstilla þennan samning þannig að upphæðirnar séu klárar.

Það er auðvitað mjög ánægjulegt að svo snarlega sé hægt að bregðast við þessu því eins og við vitum er hér um stórt og mikið mál að ræða, deilumál sem hefur verið þvers og kruss á sveitarfélög og flokka og því mikilvægt að farið verði markvisst í það. Það er þess vegna sérstakt fagnaðarefni að þetta skuli vera komið hér fram þannig að ekki verði tafir á þessu vegna skorts á fjármunum.

Frú forseti. Ég ætla aðeins að nefna tvær stofnanir sem báðar koma við sögu varðandi frumvarp til fjáraukalaga og síðan þær breytingartillögur sem koma frá meiri hluta nefndarinnar. Þetta eru tvær háskólastofnanir, annars vegar Háskólinn á Akureyri, sem er nefndur í frumvarpi til fjáraukalaga, og síðan Landbúnaðarháskóli Íslands, sem nefndur er í breytingartillögum meiri hluta nefndarinnar.

Hér er afskaplega ólíku saman að jafna og ég vil taka þetta sem dæmi um hversu misvísandi vinnubrögðin eru. Það er mjög til fyrirmyndar sem segir í texta með breytingartillögum meiri hlutans um Landbúnaðarháskóla Íslands en þar er miðað við að stofnunin verði hallalaus í árslok 2005. Það er mjög til fyrirmyndar að þannig sé staðið að málum að stofnanir séu hallalausar í árslok þess árs sem viðkomandi fjáraukalög eiga við. Hér er hins vegar enn eitt dæmi um það sem við höfum margoft rætt að hluti af þessari upphæð á að sjálfsögðu ekki heima hér vegna þess að það er á skjön við fjárreiðulög. En ég er búinn að fjalla um það og ætla þess vegna að láta það liggja milli hluta.

Þarna er hins vegar augljóslega rétt að verkinu staðið — en við verðum að hafa þann fyrirvara á að svo sé vegna þess að því miður eru allt of mörg dæmi um að ekki sé nógu vel vandað til verka, en við skulum gefa okkur að það sé þarna — að skilja stofnunina eftir hallalausa í árslok þannig að hún geti byrjað á hreinu borði á næsta ári.

Hin stofnunin sem ég nefndi áðan, Háskólinn á Akureyri, býr við allt aðra niðurstöðu. Þar er gerður samningur við menntamálaráðuneytið, þvingaður samningur vil ég meina, og með honum virðist verða stöðnun í þróun skólans, það verður að skera niður starfsemi, fækka deildum og minnka þann vöxt sem þar er. Það er verið að tefja þann tíma sem það tekur stofnunina að komast í það sem kalla mætti „hagkvæmnisstærð“. Það hefði þurft að gera áætlun um hvernig hægt væri að flýta því að stofnunin næði slíkri stærð, sem er mikilvægt að verði, og að það væri skipulega unnið að því.

Það vekur auðvitað athygli að svona mismunandi skuli vera tekið á tveimur háskólastofnunum. Skýringin er væntanlega m.a. sú að við búum við það sérkennilega kerfi að sumir háskólar heyra undir menntamálaráðuneytið en aðrir háskólar undir landbúnaðarráðuneytið. Það eru augljóslega mismunandi reglur sem gilda um þær stofnanir sem heyra undir landbúnaðarráðuneytið. Það er algjörlega óskiljanlegt hvernig á því stendur, en við skulum ekki gleyma því að ríkisstjórnin hefur boðað að heildarlöggjöf um háskólastigið verði endurskoðuð og þar verði tryggt að allir háskólar sitji við sama borð. Við bíðum spennt eftir að sjá það frumvarp og vonum að það komi sem allra fyrst.

Frú forseti. Fyrst ég er farinn að tala hér um Háskólann á Akureyri er eiginlega ekki hægt að komast hjá því að rifja aðeins upp umræðu sem hér varð í gær þegar hæstv. menntamálaráðherra fór enn einu sinni með talnasúpu sem einhver hefur væntanlega ritað á blað fyrir hæstv. ráðherra, og það var eiginlega ekki hægt að skilja það öðruvísi en hæstv. ráðherra tryði sjálf öllum þeim tölum sem hún fór með og að hér væri háskólastigið raunverulega það besta, magnaðasta og mest til fyrirmyndar af öllu háskólastigi í heimi, ef rétt var skilinn ræðubútur hæstv. ráðherra.

Síðan sjáum við í fréttum strax í gær að enn ein úttektin hefur farið fram á Háskóla Íslands, líklega sú þriðja á skömmum tíma. Þar kemur í ljós að Háskóli Íslands stendur að mestu leyti afskaplega vel í samanburði við aðra háskóla í Evrópu. Það er eitt sem vekur þó sérstaka athygli, og það vekur einnig athygli að það er sama niðurstaða og kom fram í úttekt sem Ríkisendurskoðun gerði á Háskólanum, og það er að fjárveitingar til skólans standast ekki samanburð við fjárveitingar til annarra háskóla í Evrópu. Það má segja að skólinn hafi staðist mjög vel allan annan samanburð en fjárveitingar stóðust ekki samanburðinn, þrátt fyrir að ráðherra menntamála hafi farið oft með þennan sama söng um að hér væru fjármunir til háskólastigsins til fyrirmyndar hvert sem litið væri. Að vísu hafði hæstv. ráðherra breytt textanum örlítið frá því sem farið var með hér í þingsölum nokkrum klukkustundum áður, því að nú var textinn orðinn sá að það væri náttúrlega ekki hægt að horfa á þetta, heldur væri niðurstaðan sú að hér hefðum við bætt mest við. Nú var það orðinn sá samanburður sem stóðst, að við hefðum bætt mest við.

En það verður auðvitað að segjast eins og er að sá samanburður getur auðvitað gefið góða niðurstöðu ef nógu lítið hefur verið fyrir. Og þannig er hægt að taka rétta viðmiðun til að komast að þessari niðurstöðu. En við eigum ekki að vera að standa í svona deilum, þetta eru óþarfar deilur. Niðurstöðurnar koma núna trekk í trekk, sama niðurstaðan aftur og aftur, og þá á ekkert að vera að berja hausnum við steininn. Þá á auðvitað að fara í þá vinnu að skoða hvert við viljum stefna með menntun í landinu. Síðan eigum við að stika okkur leið að þeim markmiðum en ekki vera að deila um svo augljósa hluti sem þetta er.

Frú forseti. Ég sagði í upphafi máls míns að ég vildi helst láta megnið af þessari umræðu bíða til 3. umr. þegar við höfum betri heildarmynd um hvað verður í lokaniðurstöðu fjáraukalaga fyrir árið 2005. Vonandi hafa Samtök atvinnulífsins og ríkisstjórnin nú náð saman og væntanlega er verið að kynna það samkomulag á blaðamannafundi nú. Ég vænti þess því að við 3. umr. munum við vita hvernig það samkomulag hljóðar. Ég trúi því og treysti, eins og ég hef áður sagt, að Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafi komið vitinu fyrir ríkisstjórnina og að við getum vænst þess að töluverðar breytingar verði á, ef ekki því frumvarpi sem hér liggur til fjáraukalaga þá a.m.k. frumvarpinu sem liggur til fjárlaga næsta árs. Og þá getum við vænst þess að það verði mýkri lending í því þensluástandi sem við búum við nú en hægt var að búast við með óbreyttu fjárlagafrumvarpi.