132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:03]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegur forseti. Hér fer fram 2. umr. um fjáraukalög. Ég fagna því að stjórnarandstaðan hefur í þessari umræðu rætt töluvert um fjárreiðulögin, nr. 88/1997.

Fjárreiðulögin voru gríðarlegt framfaraspor þegar þau voru sett. Allan tímann síðan höfum við leitast við að fara eftir þeim. Það var mikil lausung í fjármálum ríkisins áður fyrr, fjárreiðulög kannski ekki flutt nema á margra ára fresti o.s.frv. Reglur um hvað ætti þar heima og hvað ekki voru mjög óskýrar. Það hefur verið reynt, virðulegi forseti, að fara eftir áðurnefndum lögum og vanda vinnubrögðin. Það hefur náðst verulegur árangur en það er rétt sem fram hefur komið hjá stjórnarandstöðunni, að það vantar töluvert á að menn virði þessi lög. Það er alveg rétt sem kemur fram í gagnrýni sumra hv. þingmanna, að sumt af því sem hér er í fjárreiðulögunum ætti helst ekki að vera þar, í fyrsta lagi vegna þess að það var ekki ófyrirséð. Í öðru lagi má færa rök fyrir því að það ætti heima í fjárlögum 2006. Þetta er hárrétt.

Hins vegar eru sumt í þeirri gagnrýni byggt misskilningi, t.d. hjá hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni. Hann spurði: Hvernig í ósköpunum stendur á því að 2,2 milljarða kr. færsla er nú í fjárreiðulögunum? Það er alveg rétt að færslan á að vera í fjárreiðulögunum vegna þess að salan á sjóðnum og færslan á peningunum til Lífeyrissjóðs bænda átti sér stað núna. Þá er rétt að það færist inn í fjárlögin á þessu ári sem og tekjurnar af því og skatttekjur ríkisins, þessar 85 millj. kr. Gagnrýni hans er því á misskilningi byggð.

Hins vegar er alltaf, virðulegi forseti, þó nokkuð um að upp komi ófyrirsjáanlegir hlutir. Þá er bara að taka því. Einnig er um það að ræða og rétt að það komi fram að nokkrar færslur í fjárreiðulögunum, sjálfsagt upp á einar 10–15 millj. kr., má rekja til handvammar hjá meiri hluta fjárlaganefndar við afgreiðslu í fyrra, ákveðnir hlutir sem við höfðum bókað komust ekki rétt til skila. Það hefur verið leiðrétt og ríkisstjórnin tekið það til greina. Það hefur farið í gegn en slíkt mun alltaf gerast þótt leiðinlegt sé að þurfa að segja frá því.

Það er líka rétt að sumar greiðslur í frumvarpinu eru því miður illverjanlegar. Menn hafa komið hvað eftir annað og rætt um þau atriði, t.d. um embætti forseta Íslands. Nú er það leiðrétt mörg ár aftur í tímann og verður að segja þá sögu eins og hún er. Því miður hefur fjármálastjórn þess embættis verið til töluverðs vansa. Það er fullyrt við okkur í fjárlaganefnd að á milli forsætisráðuneytisins og embættis forsetans fari fram umræða um að einhver sem hafi beina yfirstjórn komi að málinu og það væri þá forsetaritari sem bæri ábyrgð á fjárreiðunum. Ég ætla að vona að það gangi eftir vegna þess að það er alveg rétt sem menn hafa sagt, að við getum ekki látið þetta vera svona.

Ýmsum öðrum stofnunum hefur ekki gengið nógu vel þótt þeim hafi fækkað verulega. Þeim stofnunum sem við eigum í stórvandræðum með hefur fækkað verulega. Á hinn bóginn hef ég ekki tekið eftir því að neinn talaði um að hjá sjúkrastofnunum, sem hafa verið stærstu liðirnir hjá okkur og ekki síst háskólasjúkrahúsið, hefur tekist að ná umtalsverðum rekstrarárangri. Miðað við það sem við höfum fjallað um á undanförnum árum finnst mér ástæða til að fara um það viðurkenningar- og þakkarorðum. Þetta var eitthvað sem sumir voru farnir að trúa að væri óviðráðanlegt. En nú er að nást þar árangur og það er ástæða til að vera ánægður með það.

Þarna er ein færsla sem ég ætla að taka sérstaklega undir gagnrýnina á, þ.e. færslu upp á 276 millj. kr. í utanríkisráðuneytinu til sendiráðanna. Skýringin sem nefndin fékk á þessu máli var sú, frá ráðuneytisstjóranum, að utanríkisráðuneytið hefði ekki sinnt hagræðingarkröfu gagnvart þeim sem sett hefur verið í fjárlög síðastliðin fimm eða sex ár. Það er náttúrlega skelfilegt, virðulegi forseti, þegar ráðuneytið hagar sér svona. Ég vil trúa því að slíkt endurtaki sig ekki enda er vansinn mikill. Við höfum líka rætt, ég og formaður fjárlaganefndar, hv. þm. Magnús Stefánsson, við ríkisfjármálanefnd og ráðuneytið um að við verðum að breyta vinnubrögðum gagnvart kröfunni um hagræðingu. Það er sjálfsagt að ríkið geri kröfur til rekstraraðila sinna eins og gerð er krafa til rekstraraðila í frjálsum atvinnurekstri um hagræðingu. Það er engin ástæða til að gefa það eftir á nokkurn hátt. Það að ráðuneyti geti stungið því undir stól árum saman er ekki verjanlegt. Það er vítavert í alla staði, hvernig sem á það er litið. Ég ætla rétt að vona, virðulegi forseti, að ekkert ráðuneyti vogi sér hér eftir að sýna þinginu slíka óvirðingu, að virða ekki kröfur og lög árum saman en biðji hins vegar um háar fjárhæðir. (Gripið fram í: Við höfum sagt þetta áður.)

Í heildina tekið, virðulegi forseti, verður þó að segja að rekstrartilfærslur í fjáraukalögum í ár eru minni en við höfum fengist við á undanförnum árum. Þótt afkoman sé mun betri af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna viðskiptahallans, fáum við inn verulegar umframtekjur miðað við það sem við ætluðum. Ég vona, virðulegur forseti, að þær umframtekjur hverfi vegna þess að þau kaup á erlendum varningi sem standa á bak við þetta eiga ekki að eiga sér stað. Vonandi hverfa þessar tekjur. Vonandi verður ríkissjóður ekki með svo mikinn afgang á næsta ári. Ég ætla hreint að vona það. Það er engin ástæða til þess að ríkið taki svo gríðarlega peninga inn og það gerir í ár.

Virðulegi forseti. Meginmarkmið efnahagsstefnunnar hefur nokkurn veginn staðist. Við settum okkur það mark að samneyslan í landinu mundi ekki hækka um nema 2% og millifærslurnar í ríkiskerfinu ekki nema um 2,5%. Samneyslan er aðeins yfir því markmiði en millifærslurnar eru töluvert undir því. Í heildina hefur þetta staðist. Og að vera ekki með nema með 2,3–2,2% hækkun í heildina á ári, eins og núna, sem við vitum að mun enda með hagvöxt yfir 6%. Þótt við vitum ekki nákvæmlega hvenær það verður en það verður ekki fyrr en einhvern tíma næsta vor sem þeir útreikningar koma, er náttúrlega einhver mesti árangur sem við höfum náð í ríkisrekstri, hinum opinbera rekstri. Við höfum alltaf átt í vandræðum með það, virðulegur forseti, og haft tilhneigingu til að hækka samneysluna umfram vöxt þjóðarbúsins. Í ár hefur tekist að lækka hana hlutfallslega. Ég tel ástæðu til að fagna því. Við ætluðum okkur að ná því markmiði og okkur hefur tekist það. Þetta er meginmarkmiðið.

Ég vil ítreka það sem ég hef oft sagt áður: Aðhald að samneyslunni og aðhald að tilfærslunum er miklu meira atriði til lengri tíma fyrir þróun ríkisfjármálanna en hve margar milljónir til eða frá eru í afgang. Það geta vel verið þær aðstæður í efnahagslífinu að verjandi sé og jafnvel af hinu góða að við rekum ríkissjóð einhvern tíma með halla. Það eigum við að gera ef efnahagslífið kallar á það. Við erum með óeðlilega góða afkomu núna sem byggist á óeðlilegri neyslu, óeðlilegum kaupmætti í erlendum varningi.

Við verðum þó að halda áfram því markmiði, sem er aðalatriðið, að halda aftur af samneyslunni og passa að hún vaxi minna en þjóðarbúið í heild. Það er hið stóra markmið. Þannig getum við áfram tryggt það sem tekist hefur síðustu 10–12 árin, að gera Ísland að ríki hvar ríkisfjármálin eru einna traustust í heiminum. Það eru örfá ríki, Noregur, Ísland, Sviss, Lúxemborg og nokkur önnur sem hafa þá hluti í lagi og eru til fyrirmyndar. Sú afkoma ríkisins, slík staða ríkisins er grundvöllur sem framtíðin byggir á, að við skuldsetjum okkur ekki langt fram í tímann og stela lífskjörum af næstu kynslóð, hinum ungu, hinum óbornu. Það gera þær þjóðir sem skuldsetja sig upp fyrir rjáfur til að halda uppi neyslunni á hverjum tíma. Það gerum við ekki. Við erum að lækka skuldirnar og búa til lífskjör fyrir framtíðina. Þess vegna skulum við fagna þessu núna, að við stöndum svo vel. Við skulum fagna því mjög og óska sjálfum okkur til hamingju með það. Næsta árið verðum við kannski dálítið blankari en það er líka allt í lagi, okkur veitir ekkert af því að kynnast því líka.