132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:16]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við höfum oft rætt málið við embættismenn um forsetaembættið og mig minnir að einn embættismaður hafi svarað: Það er erfitt fyrir okkur að sparka upp fyrir okkur.

Auðvitað er forsetaembættið þannig embætti að menn bera virðingu fyrir því, það er æðsta embættið. Því er mjög slæmt ef það virðir ekki lög. Fjárlögin eru lög og öllum ber að fara eftir þeim. Það er mjög slæmt þegar hin æðstu embætti eins og embætti forseta Íslands eða Alþingi sjálft koma á fjáraukalögum og hafa ekki getað farið eftir þessu.

Varðandi seinni spurninguna, um utanríkisráðuneytið, get ég ekki svarað öðru en því að ég veit ekki annað en okkur hefur verið sagt. Við gerum þessar kröfur. Við gerð fjárlaganna eru gerðar og samþykktar af ráðherrum ákveðnar kröfur um hagræðingu. Þær eru mismunandi frá einu ári til annars. Það hefur komið fram í greinargerðum og skýringum hve miklar þessar kröfur eru. Síðan er ráðuneytunum gert skylt að setja þetta inn á rekstrarliði sína. Þið getið séð það víða, t.d. í ráðuneytum þar sem ég tel að þetta sé gert til mikillar fyrirmyndar, t.d. í dómsmálaráðuneyti og félagsmálaráðuneyti. Þar eru hagræðingarkröfur nákvæmlega tíundaðar inn á hin ýmsu embætti og stofnanir og þeim gert skylt að hlíta því og það gengur eftir.

Ég kann enga aðra skýringu á þessu með utanríkisráðuneytið en þá að ráðuneytið hafi ekki gert kröfu til þessara stofnana um þá hluti. Ég skil þetta ekki öðruvísi en svo virðist sem þeir hafi ekki sett fram þessa kröfu og því hafi embættin ekki talið sér skylt að fara eftir henni. Ég veit ekkert annað.