132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:20]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. um fjáraukalög vegna ársins 2005 er eðlilegt að umræðan fari vítt um sviðið þar sem um umfangsmikið mál er að ræða, fjárlög íslenska ríkisins. Hv. þm. Jón Bjarnason hélt áðan mikla ræðu og talaði m.a. um að fyrirhugaðar skattalækkanir ríkisstjórnarinnar tefldu stöðugleikanum í tvísýnu. Hv. þingmaður segir að ríkisstjórnin eigi að fresta fyrirhuguðum skattalækkunum. En honum til upplýsingar, þegar hv. þingmaður talar um gríðarlega miklar skattalækkanir, þá vegur það þannig að þegar við lækkum tekjuskattsprósentuna um eitt prósent þá eru það rúmlega fjórir milljarðar kr., sem er 0,04% af landsframleiðslu þjóðarinnar. Hv. þingmaður telur að þessi 0,04% af landsframleiðslu þjóðarinnar skipti höfuðmáli í þessu samhengi. Svo er ekki og að sjálfsögðu mun ríkisstjórnin standa að því, eins og þeir stjórnmálaflokkar sem að henni standa lofuðu fyrir síðustu alþingiskosningar, að lækka skattálögur á almenning í landinu, enda hefur verið fast haldið utan um ríkissjóð á undanförnum árum og skuldir ríkissjóðs snarlækkað á tímabilinu.

Hv. þm. Jón Bjarnason og flokksfélagar hans tala mikið um ruðningsáhrif vegna stóriðjuframkvæmda á Austurlandi, að það sé eitt höfuðatriðið í að gengi krónunnar er eins og raun ber vitni í dag, og þar af leiðandi standi sjávarútvegurinn og ferðaþjónustan höllum fæti. En eru þær framkvæmdir sem nú standa yfir á Austurlandi svo mikill áhrifavaldur fyrir gengisþróunina á undanförnum missirum? Svarið er nei. Hér hefur veruleikinn verið skrumskældur allsvakalega. Ef við horfum á aðra þætti er snerta gengisþróunina getum við séð að kaup erlendra aðila og spákaupmennska á íslenskum skuldabréfum erlendis hefur undanfarin missiri numið vel á annað hundrað milljörðum kr. Menn hafa nefnt 130 milljarða kr. í því samhengi. Það hefur að sjálfsögðu mikil áhrif á gengisþróunina og stjórnvöld geta ekki haft áhrif á þá þróun.

Íslensku viðskiptabankarnir hafa farið mikinn í útlánaaukningu og erlendri skuldasöfnun sem hefur áhrif á stöðu krónunnar. Aukningin á milli júlí 2004 og júlí 2005 er 955 milljarðar kr. Nú hef ég tekið dæmi um að gjaldeyrisviðskipti erlendis eru 130 milljarðar kr., í spákaupmennsku, 955 milljarðar í útlánaaukningu bankanna, en á sama tíma er áætlað innstreymi gjaldeyris vegna stóriðjuframkvæmda í landinu, ekki bara á Austurlandi heldur líka í kjördæmi hv. þm. Jóns Bjarnasonar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar, sem eru staddir í salnum, sé um 35 milljarðar kr. Við sjáum að sú innkoma sem menn héldu að stóriðjunni mundi fylgja, þ.e. innflutningur á gjaldeyri, er miklu minni en upphaflega var haldið. Erlent vinnuafl vinnur að miklu leyti að uppbyggingunni, þessir fjármunir streyma að nokkru leyti úr landi og þar af leiðandi er innkoman minni.

Öll rök hníga að því að virkjanaframkvæmdir á Austurlandi eða á Vesturlandi hafi ekki haft þau gríðarlegu áhrif sem forustumenn vinstri grænna hafa haldið fram úr ræðustól Alþingis. Af málflutningi þeirra mætti helst ráða að aðeins séu framkvæmdir á einum stað á landinu sem ríkisstjórnin stendur fyrir, að þær séu á Austurlandi. Svo er ekki. Það eru miklar framkvæmdir á Vesturlandi í þessum efnum en þær eru lítill hluti í þessu stóra samhengi.

Hæstv. forseti. Ég vil síðan nefna einstök mál sem koma fram nú við 2. umr., þ.e. tillögur frá ríkisstjórn og meiri hluta fjárlaganefndar. Fyrst vil ég nefna unglingalandsmótið í Vík í Mýrdal sem fær 15 millj. kr. á fjáraukalögum þessa árs vegna hinnar miklu uppbyggingar sem átti sér stað í tengslum við það glæsilega mót. Þessir viðburðir, unglingalandsmótin, hafa haft gríðarlega mikið að segja fyrir þau byggðarlög sem hafa haldið þessa viðburði. Það er mikilvægt fyrir fjárveitingavaldið að styðja við bakið á þessum byggðarlögum þannig að virðingu íþróttarinnar sé viðhaldið og stutt sé við bakið á viðkomandi sveitarfélögum sem hafa mikinn metnað við að halda slík mót.

Það er mikilvægt að fjárveitingavaldið standi áfram vel að þeim verkefnum. Fram undan er unglingalandsmót á Laugum í Reykjadal. Það er mikilvægt að fjárveitingavaldið haldi áfram, hér eftir sem hingað til, að koma að þeim verkefnum enda mikilvægt, þar sem um miklar framkvæmdir er að ræða í tengslum við þessi mót.

Umræðan um vegamál hefur verið fyrirferðarmikil, bæði í tengslum við gerð vegáætlunar og fjárlög á undanförnum árum, ekki síst á síðustu missirum. Ýmis jarðgöng hafa verið nefnd til sögunnar í því samhengi. Ég vil af þessu tilefni fagna sérstaklega 300 millj. kr. sem verja á til endurbóta og öryggisráðstafana við Óshlíðarveg. Það er mikilvægt að gæta öryggis þeirra vegfarenda sem um þann veg fara. Í framhaldinu á síðan að ráðast í jarðgangagerð á því svæði.

Ég hef verið talsmaður þess að gera sem flest jarðgöng á landsbyggðinni. Þó verður að hafa ýmislegt í huga við slíkar ákvarðanir. Að sjálfsögðu skiptir arðsemi framkvæmdanna miklu máli en öryggi vegfarenda skiptir ekki síður máli. Það er gríðarleg umferð um þennan veg og því styð ég þessa framkvæmd heils hugar og vonast til að Vestfirðingar líti þessa framkvæmd augum innan fárra ára. Þess ber einnig að geta að að sjálfsögðu fleygir þessari tækni sífellt fram, framkvæmdir verða ódýrari og verkþekking eykst. Ég tel um vísi að ræða að miklu meiri framkvæmdum og í miklu meiri mæli en á undanförnum árum í jarðgangagerð hér á landi.

Jafnframt hljótum við að fagna því að veittar eru 100 millj. kr. til hálkuvarna á þjóðvegum landsins. Það er mjög mikilvægt mál. Sem vegfarandi á þjóðvegunum get ég vitnað um að aðstæður á vegum landsins hafa breyst gríðarlega á undanförnum árum með tilkomu þess að flutningar fluttust af sjó yfir á vegina. Með því hafa ákveðnar hættur skapast, ekki síst í vályndum veðrum. Því er mikilvægt að vel sé staðið að hálkuvörnum og ég fagna því sérstaklega að við þann málaflokk sé aukið.

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu, eins og kom fram í 1. umr. um málið, skiptir sala Símans, markaðsvæðing Símans, miklu máli fyrir þau fjáraukalög sem við munum afgreiða á næstu missirum. Staða ríkissjóðs hefur stórbatnað fyrir vikið. Velheppnaðri markaðsvæðingu Símans er lokið og við getum ráðist í mörg verkefni á sviði samgangna, fjarskipta, aukinnar nýsköpunar og uppbyggingar í atvinnumálum á landsbyggðinni. Við hljótum að fagna því, þingmenn alls landsins, að tilverugrundvöllur byggðarlaganna sé styrktur með þeim hætti. Það er mikilvægt því að án markaðsvæðingar Símans hefðum við ekki getað farið í jafnumfangsmiklar framkvæmdir og í augsýn eru á næstu árum.