132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[16:31]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir fór yfir forsendur fjárlaga fyrir árið 2005. Auðvitað er það svo þegar fjárlög eru gerð hverju sinni að þau eiga að sýna sem gleggsta mynd af afkomu ríkissjóðs. Í mínum huga, því miður ekki í hugum sumra, er allt á bullandi uppleið í íslensku þjóðfélagi og mikil sigling á öllu efnahagslífinu. Ef það væri svo að þær áætlanir sem ríkisstjórnin gerði væri einhver blekkingaleikur þess efnis að fegra stöðu ríkissjóðs og afkomu hans væri það náttúrlega alvarlegt mál. Þvert á móti er í þeim forsendum sem nú liggja fyrir í fjáraukalagafrumvarpinu fyrir árið 2005 svo til allar tölur góðar og til hagsbóta fyrir afkomu ríkissjóðs. Stjórnarmeirihlutinn hefur því ekki verið að fegra hlutina á einn eða annan veg. Til dæmis hefur fjárfesting í samfélaginu stóraukist, var áætluð 18 milljarðar en verða 28,5 og fleira mætti nefna.

Af því að hv. þingmaður spurði um spænsk-íslenska orðabók er það trúlega mikilvægt mál sem er örugglega komið á einhvern rekspöl því annars mæltum við ekki fyrir því hér. Það eru mjög mörg mikilvæg mál í þessum efnum. (Gripið fram í.) Ég talaði um öryggi vegfarenda, hv. þm. Jón Bjarnason, sem fara um Óshlíð. Það er mjög mikilvægt mál, hálkuvarnir upp á 100 millj. kr. er mikilvægt mál. Ég held því að hv. þingmenn ættu ekki að gera lítið úr þeim tillögum (Gripið fram í.) sem stjórnarmeirihlutinn gerir hér. (Gripið fram í.) Hvað Sólvang varðar hefur hæstv. heilbrigðisráðherra sagt að úrbætur verði í þeim efnum á næstunni en ég vil minna hv. þingmann á að það tekur tíma að koma þeim úrbótum á. Nú er einungis rúmur einn og hálfur mánuður til áramóta og hægt er að bregðast við þeim í fjárlögum ársins 2006.