132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:34]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmönnum fyrir tillitssemi við mig með því að hliðra til í umræðunni. Ég mun reyna að svara þeim spurningum sem beint hefur verið sérstaklega til mín og fara yfir þau mál sem sérstaklega hefur verið beðið um að ég segi skoðun mína á.

Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson spurði um þrennt, annars vegar um ýmis leyfi og skráningargjöld. Þar eru náttúrlega, eins og segir í textanum, ýmis leyfi og ýmsar skráningar en ég ætla að stór hluti af því sé m.a. skráningargjöld vegna bifreiða sem hafa, eins og fram hefur komið í umræðunni, verið fluttar inn í talsvert miklu magni að undanförnu.

Síðan var spurning um dómsektir og viðurlagaákvæði, hverju breytingar á þeim liðum sættu. Því er til að svara að á liðnum er um tvenns konar breytingar að ræða, annars vegar lækkun um 1.500 millj. kr. og hins vegar hækkun um rúmar 900 millj. kr. sem gefur niðurstöðuna 968,5 millj. kr., ef ég fer rétt með þetta. Lækkunin er vegna þess að sektir olíufélaganna voru færðar af ríkisreikningi árið 2004. Menn komust að þeirri niðurstöðu að það bæri að færa þær þar. Hækkunin er síðan vegna þess hvernig reynslutölur á þessu ári hafa komið út og er ekki sundurliðað neitt sérstaklega enn sem komið er.

Í þriðja lagi spurði hv. þingmaður um kostnað vegna smíði á tölvuhugbúnaði hjá Tryggingastofnun. Þetta er eins og fram kom verkefni sem hefur staðið yfir í nokkuð langan tíma og hefur kostað talsvert háar upphæðir. Tryggingastofnun fékk Ríkisendurskoðun til að fara yfir stöðuna í þessu máli sem komst að þeirri niðurstöðu að upp á vantaði til þess að klára málið í heild sinni. Sú upphæð sem Ríkisendurskoðun taldi að vantaði upp á að klára málið er sú upphæð sem lögð er til í fjáraukalögunum að Tryggingastofnun fái til þess að klára verkið.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi hluti sem segja má að tengist ekki síður framkvæmd fjárlaga en fjárlagagerðinni sjálfri, sem þó á rót sína í fjárlagagerðinni. Hún telur að jafnvel hafi verið lausatök á málum að undanförnu. Ég kannast ekki við að það hafi verið nein lausatök á ríkisfjármálunum og bendi því til staðfestingar á skuldastöðu ríkissjóðs, hver hún er í dag. Skuldastaðan væri ekki sú sem hún er ef einhver lausatök hefðu verið á ríkissjóði á undanförnum árum.

Ég held að hv. þingmenn vanmeti sjálfa sig og stöðu sína þegar þeir gera því skóna að framkvæmdarvaldið hafi tekið af þeim fjárveitingavaldið. Allar ákvarðanir þarf að taka í sölum hv. Alþingis og verður ekki fram hjá því komist.

Fjárreiðulögin hafa verið til umræðu. Þau standa mér nærri, ekki aðeins vegna þess að ég sat í sérnefndinni sem um þau fjallaði í þinginu heldur flutti ég þingmál um þetta efni nokkur ár í röð ásamt félögum mínum í fjárlaganefnd á þeim tíma. Ég kannast ekki við að gengið hafi verið fram hjá fjárreiðulögunum enda tel ég þau afskaplega nauðsynlegt tæki til þess að henda reiður á fjármunum ríkisins. Hins vegar er gert ráð fyrir því að á einhverjum augnablikum þurfi að taka ákvarðanir án þess að bera þær undir Alþingi og fjalla um þær ákvarðanir í tengslum við fjárveitingar í fjáraukalögum. Það er auðvitað mismikið á milli ára en þegar tillit hefur verið tekið til óreglulegra gjalda er í fjáraukalögum þessa árs um óvenjulega lágt hlutfall að ræða miðað við það sem verið hefur á undanförnum árum. Ég held að þingmenn sem hafa sérstakan áhuga á þessum málum hafi því ástæðu til að fagna þeirri þróun.

Það er gagnrýnt að bæði sé um vanáætlun að ræða hvað varðar tekjur og gjöld. Við búum núna við mikla uppgangstíma í efnahagslífinu sem menn gátu ekki nákvæmlega séð fyrir. Það gerir það að verkum að tekjurnar eru talsvert hærri en við höfum áætlað. Ég man reyndar þá tíð að því var öfugt farið. Mér finnst öllu betra að við vanáætlum gjöldin en að við ofáætlum þau. Ég tel rétt og skynsamlegt að menn gæti ákveðinnar íhaldssemi í að áætla tekjurnar þótt við verðum að gera það á eins raunsæjan hátt og mögulegt er en alls ekki að fara út í æfingar sem kalla á ofáætlun.

Um gjöldin gildir það sem ég hef áður sagt, að þar er staðan nokkuð góð. Þar þarf litlu að breyta með fjáraukalagafrumvarpinu, bæði í upphaflega frumvarpinu og eins í breytingartillögum sem hér hafa verið lagðar fram, sérstaklega þegar litið er fram hjá óreglulegum liðum, eins og ber að gera. Ég sé hins vegar ekki í hendi mér að hugmyndir hæstv. forsætisráðherra, um að þingtíminn verði lengri, muni skipta sköpum í þessum efnum. Auðvitað geta komið upp þau tilvik að það geti flýtt fyrir því að samþykki Alþingis fáist fyrir ákvörðunum. Ég held að það muni ekki skipta sköpum en auðvitað skiptir miklu máli að gott samstarf sé á milli þá ráðuneytisins og fjárlaganefndarinnar ef upp koma sérstakar aðstæður sem þarf að taka á.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir ræddi um hvernig ætla mætti að staðan yrði á næsta ári, um spár þar um. Því er til að svara að þær spár byggja á mismunandi forsendum. Þar af leiðandi er niðurstaða þeirra mismunandi en síðan eru þær auðvitað spár en ekki staðreyndir. Það er síðan eðlilegt, eins og hv. þingmaður hefur gert, að skoða aftur í tímann hvernig spár hafa staðist. En þegar það er gert þarf líka að skoða á hvaða tíma spárnar eru bornar saman við niðurstöðurnar.

Það tekur langan tíma að ná öllum hagtölum saman til þess að fá endanlega niðurstöðu um stöðuna á tilteknum tímapunkti. En það er ekki bara óvissa í spánni, sem byggir á tilteknum gögnum sem menn hafa handhæg á þeim tíma, heldur er einnig óvissa í niðurstöðunni þegar tímapunkturinn er liðinn. Það tekur talsverðan tíma fyrir gögnin að koma fram, eins og ég sagði áðan. Þá þarf líka að horfa til þess að á þeim tíma sem hv. þingmaður vísaði til, ég held ég muni rétt, hafa verið gerðar breytingar á þeim gögnum sem unnið er með í hagtölum. Ég er ekki alveg viss um að niðurstöðurnar sem hún er að tala um gefi sanngjarna mynd af stöðunni. En þetta er að sjálfsögðu hlutur sem er ekki bara eðlilegt heldur nauðsynlegt að skoða til þess að menn geti lært af reynslunni í því þegar verið er að spá og þetta á við um fleiri greinar en hagfræðina.

Hins vegar er athyglisvert þar sem hv. þingmaður vitnaði sérstaklega til hagspár ASÍ sem var seinasta hagspáin að koma fram af þeim sem hafa verið í umræðunni núna í haust, þá er ég að tala um spár frá greiningardeildum bankanna, aðallega tveimur, Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu og svo ASÍ, að spá ASÍ og spá fjármálaráðuneytisins eru þær tvær spár sem eru líkastar, sýnist mér. Það verður mjög spennandi fyrir mig — eins og hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir minntist á er ég nýr í þessu starfi — að fylgjast nánar með því en ég hef gert undanfarin ár hvernig þessar spár allar ganga eftir og hvaða hlutar spánna ganga ekki eftir og hvaða þættir hafa áhrif á að þær gangi ekki eftir. Við skulum gera okkur grein fyrir því varðandi þær spár sem við erum að vinna með núna að mjög ólíklegt er að nokkur þeirra gangi nákvæmlega eftir, einfaldlega vegna þess að hlutirnir eru fljótir að breytast, eins og reyndar kom fram hjá hv. þingmanni. Jafnvel frá því í september hafa orðið breytingar sem ekki var gert ráð fyrir þá.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði sérstaklega um þær hugmyndir fjármálaráðuneytisins sem koma fram í spá ráðuneytisins um að Seðlabankinn muni lækka vexti þrátt fyrir að ráðuneytið spái því að verðbólgan verði umfram verðbólgumarkmið bankans. Það byggir á því að Seðlabankinn, samkvæmt því sem kemur fram í hans eigin gögnum, er framsýnn í aðgerðum sínum, hann horfir fram í tímann hvernig aðstæður verða í framtíðinni og miðar ákvarðanir sínar við það. Ef hann á von á að hægi á hagvexti í framtíðinni, hann verði minni en hann er núna, mun bankinn lækka vextina í góðum tíma til að hafa áhrif á stöðugleika verðlags og til að hagvaxtarsamdráttur hafi ekki áhrif á stöðugleika verðlags, alveg á sama hátt og hann hefur verið framsýnn í því að hækka vexti til að hafa áhrif á hverjir vextirnir eru þegar þensla er til að vextirnir geti haft áhrif á að halda verðstöðugleika á slíku tímabili. Þannig er talað um að það taki allt upp í eitt og hálft ár fyrir áhrif vaxtaákvarðana Seðlabankans að koma fram. Á þeim forsendum byggist spá ráðuneytisins.

En auðvitað er það ekki svo í þessum málum frekar en nokkrum öðrum að allt sé fullkomið. Það gera allir mistök en menn reyna sífellt að gera sitt besta og bæta sig í því sem við erum að sýsla með, hvort sem það eru spárnar, fjárlagagerðin sjálf eða framkvæmd fjárlaganna. Ég mun að sjálfsögðu leitast við að bæta þá vinnu sem fram hefur farið, en ég vil ekki kannast við að lausatök hafi verið á þessum málum fram til þessa þó að, eins og ég segi, auðvitað megi bæta og vísa sérstaklega til þess hvernig staðan er hvað varðar skuldir ríkissjóðs því til staðfestingar.