132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[17:48]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin sem hann setti fram. Ráðherrann segist staðráðinn í að ætla að bæta sig í því að við fáum fjárlög sem endurspegla meira raunveruleikann. En mér sýnist nú á því sem er fram undan og við höfum fyrir framan okkur varðandi næsta ár að það gefi ekki mikla von. Ég held að við þurfum að fá inn í þingið meiri skýringar en fram hafa komið frá fjármálaráðuneytinu hvað það er sem hefur farið úrskeiðis, bæði á tekju- og gjaldahlið, ekki síst þegar við erum að tala um svona stórar fjárhæðir eins og ég nefndi. Ef við erum að tala um að stöðugt sé verið að bæta sig að því er varðar fjárlagagerðina, þá erum við með frávik á árinu 2003 á fjárlögum í gjöldum miðað við ríkisreikning upp á 7,9% og árið 2004 upp á 9,1%, á þessum tveimur árum sem eru til samanburðar. Ég veit ekki hvernig árið 2005 kemur nákvæmlega út þar sem frávikin eru að aukast. Það olli mér vissulega vonbrigðum að hæstv. ráðherra taldi það svo sem ekkert athugunarefni þó hér væri sett á borð að við værum að tala um á fimm ára tímabili 119 milljarða frávik frá fjárlögum miðað við fjárlög og ríkisreikning þar sem framkvæmdarvaldið er að samþykkja eftir á um 119 milljarða umfram það sem þingið hefur samþykkt.

Ég held, virðulegi forseti, að við verðum að taka á þessu þegar meira en þriðjungi af fjárlögum íslenska ríkisins, miðað við árið í ár, á fimm ára tímabili er ráðstafað með þessum hætti. Það hlýtur að vera eitthvað mikið að, virðulegi forseti, þegar við stöndum frammi fyrir þeim raunveruleika. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það mundi vera til bóta að meira væri í lagt að skýra út fyrir þingheimi hvað hafi farið úrskeiðis í forsendum (Forseti hringir.) fjárlaga, bæði á tekju- og gjaldalið, en gert hefur verið.