132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Breyting á XX. viðauka við EES-samninginn.

285. mál
[18:03]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu þeirri sem gerð var grein fyrir en með henni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 123/2003 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn og fella inn í samninginn tilskipun 2003/4, um almennan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Gerð er grein fyrir efni ákvörðunarinnar í tillögunni og er hún prentuð sem fylgiskjal með henni ásamt þeirri tilskipun sem hér um ræðir.

Samkvæmt tilskipuninni geta allir einstaklingar og lögaðilar óskað eftir aðgangi að upplýsingum um umhverfismál sem opinber yfirvöld ráða yfir eða eru geymdar fyrir þeirra hönd án þess að sýna fram á að þeir hafi hagsmuna að gæta. Tilskipunin fellir úr gildi eldri tilskipun um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál. Frumvarp til laga um upplýsingarétt um umhverfismál sem ætlað er að innleiða tilskipunina er nú til umfjöllunar hér á Alþingi í umhverfisnefnd.

Ég legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessari tillögu vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.