132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[18:51]
Hlusta

Flm. (Rannveig Guðmundsdóttir) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir flest af því sem hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni og met mjög mikils að finna stuðning frá formanni Frjálslynda flokksins við þetta mál. Það er reyndar alveg viljandi sem ég hef ekki sett fram í frumvarpinu tillögur eða hugmyndir um starfstilhögun þingsins. Ég hef samt alltaf sagt það og það er skoðun mín að mér finnst að það eigi að vera fleiri kjördæmavikur. En mér hefur þótt mikilvægast að reyna að fá samstöðu um lengingu viðveru þingmanna á Alþingi og síðan yrði það forsætisnefndarinnar að útfæra hvernig starfsáætlunin yrði og ná sátt um það. Það eru vinnubrögð sem ég mundi vilja sjá.

En af því að þingmaðurinn nefndi hve mikilvægt væri að vita eitthvað fram í tímann hvernig starfsáætlunin er þá tók ég móti þýskum þingmanni sem var í kynnisferð á Íslandi fyrir tveimur árum og sat með honum dagspart og ég spurði hann sérstaklega um starfsáætlun þeirra, eins og ég hef spurt svo marga þingmenn í ólíkum löndum þegar ég er að reyna að kynna mér hvernig þetta er annars staðar. Hann sagði: Ég get upplýst þig um starfsáætlunina hjá okkur í þýska þinginu upp á dag þrjú ár fram í tímann. Það stendur allt eins og stafur á bók hjá okkur.

Ég hugsa að við náum þessu nú seint, en ég vil líka taka undir það að það mundi margt breytast hjá okkur ef landið yrði eitt kjördæmi.