132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samkomudagur Alþingis og starfstími þess.

48. mál
[18:54]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að lýsa ánægju minni með þetta frumvarp. Ég hef talað áður í þessu máli, ég flutti ræðu þegar mælt var fyrir frumvarpinu fyrir ári síðan, nánast upp á dag, og ég lýsi því hér yfir að ég hef í raun og veru ekki breytt neitt um skoðun í málinu. Ég fagna þessu frumvarpi, ég tel að hér sé mjög þarft og gott frumvarp á ferðinni, frumvarp sem ætti fyrir löngu að hafa orðið að lögum. Starfstími Alþingis eins og hann er í dag er algerlega úrelt fyrirbæri. Það miðast við atvinnuhætti á Íslandi á annarri öld, í gamla daga, eins og sumir segja. Við vitum öll að hafa hér orðið gríðarlegar þjóðfélagsbreytingar á örfáum áratugum og að sjálfsögðu er fáránlegt að hér skuli starfstími löggjafarsamkomunnar vera miðaður við hluti eins og heyskap, sauðburð, réttir og slátrun að hausti.

Ég ætla svo sem ekki að hafa mál mitt mjög langt, efnislega er ég alveg sammála flutningsmanni eins og ég sagði áðan. Ég er líka sammála hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni í þeim atriðum sem hann fór yfir. Ég get staðfest það að þingfundatími Alþingis er mjög ófjölskylduvænn, eins og þetta er í dag, ekki síst fyrir okkur yngri þingmennina sem margir hverjir erum foreldrar lítilla barna. Það getur oft verið ansi erfitt, a.m.k. hvað mig varðar að geta ekki sagt að morgni þegar ég fer að heiman hvenær ég komi heim aftur að kvöldi, það er mjög óþægilegt. Við vitum aldrei hvort fundi lýkur hér klukkan sex, sjö, átta eða eins og oft gerist að það er fundað fram á nótt.

Ég er þó með þessu alls ekki að væla neitt yfir því að þurfa að vinna fram eftir ef því er að skipta, það má ekki skilja orð mín svo. En mér finnst að starfstíminn mætti vera reglubundnari en verið hefur og sérstaklega hvenær við hættum á kvöldin.

Mig langar líka til að koma aðeins að einum þætti af því að ég er nú einn af þessum svokölluðu landsbyggðarþingmönnum, ég er þingmaður Suðurkjördæmis sem er mjög víðfeðmt kjördæmi eins og reyndar hin landsbyggðarkjördæmin svokölluðu líka, Norðvesturkjördæmi og Norðausturkjördæmi. Mig langar til að koma þeirri hugmynd á framfæri að okkur landsbyggðarþingmönnunum verði gert kleift að fara um kjördæmi okkar utan hefðbundinnar kjördæmaviku bæði fyrir og eftir áramót, þ.e. tvisvar á hverju starfsári eða þingvetri, og að á meðan gætum við fengið að kalla inn varamenn. Þó að þetta væri ekki nema ein eða tvær vikur sem við landsbyggðarþingmennirnir fengjum til að fara um kjördæmi okkar og héldum þá óskertum launum, til að hitta fólk, til að mynda fólk sem er í rekstri fyrirtækja, sveitarstjórnarmenn eða venjulegt fólk, ef svo má segja, sem býr í kjördæmunum. Ég tel að fengjum við tækifæri til að gera þetta og gætum þá kallað inn varamenn í okkar stað mundi það á margan hátt létta okkur mjög lífið. Mér finnst ég fá allt of lítinn tíma á hverjum þingvetri til að fara um mitt kjördæmi og mér þykir það mjög slæmt. Það yrði til mikilla bóta ef það yrðu settar inn svona reglur. Að sjálfsögðu mundi þetta kalla á einhvern aukakostnað því að það þyrfti náttúrlega að greiða þingfararkaup til þeirra varamanna sem kæmu inn á hverjum tíma og kannski þá líka einhvern ferðakostnað til þeirra þingmanna sem væru þá að fara um kjördæmi sín en ég tel að þeir fjármunir væru óverulegir.

Þetta mundi líka hafa annað í för sér, þetta mundi á vissan hátt styrkja lýðræðið, þetta mundi gefa varaþingmönnunum tækifæri til að koma hingað inn á Alþingi og fá að taka þátt í störfum þingsins. Það hlýtur að vera hið besta mál að sem flestir þjóðfélagsþegnar, fólk sem vill beita kröftum sínum til að vinna í stjórnmálum, landi og þjóð til heilla, fái þá tækifæri í formi umbunar með því að koma inn á Alþingi og sinna þingstörfum, taka þátt í pólitíkinni. Ég held að þetta væri á margan hátt mjög gott fyrir alla flokka ef hægt væri að gera þetta í meira mæli en gert er í dag og allir mundu græða á þessu. Ég tel að það sé einstök reynsla fyrir hvaða þjóðfélagsþegn sem er að fá tækifæri til að setjast hér inn á löggjafarsamkomuna og fá að fylgjast með því hvernig hún vinnur og hvernig þetta virkar allt saman, að það sé mjög mikils virði.

Þetta var í raun og veru það sem ég vildi sagt hafa. Að öðru leyti vísa ég í ræðu mína frá því í fyrra. Ég renndi augum yfir hana áðan og eins og ég sagði í upphafi máls míns hefur ekkert breyst þar efnislega. Að lokum læt ég í ljós von mína um það að þetta frumvarp fái nú loks þá meðferð sem það á skilið, að það verði afgreitt héðan sem lög þannig að hér verði gerðar þær umbætur sem ég tel fyrir löngu orðnar tímabærar.