132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:08]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að hér er að hefjast hefðbundið öngþveiti nú í aðdraganda jólanna og það er full ástæða til að vekja athygli á því að af 179 málum sem ríkisstjórnin boðar á þessu þingi skuli einungis vera búið að mæla fyrir sjö stjórnarfrumvörpum, eins og hér kom fram hjá hv. málshefjanda. Ríkisstjórnin verður auðvitað að huga að því að samkvæmt starfsáætlun þingsins eru einungis eftir 14 þingfundadagar og þrír nefndardagar — til þess að afgreiða hvað mörg mál? Það vitum við ekki enn þá.

Ég minni á að í gær vorum við á fundi í félagsmálanefnd og þá boðaði hæstv. félagsmálaráðherra að það þyrfti að afgreiða frá honum fimm frumvörp fyrir jól og eitt af þeim er komið inn í nefnd. Af þeim málum má nefna að t.d. á að hækka ábyrgðargjald í ábyrgðasjóð launa, um 150% og það þarf auðvitað tíma til að ræða svona mál.

Hæstv. ráðherra boðar líka frumvarp um greiðslu til foreldra langveikra barna sem er löngu tímabært mál en þar var einungis miðað við 93 þús. kr. tekjur og nú erum við að sjá í kjarasamningum sem hafa verið gerðir að það á að hækka atvinnuleysisbætur og setja á þær þak upp á 180 þús. kr. sem þýðir það að hæstv. ráðherra verður að endurskoða þessa fjárhæð upp á 93 þús. sem var miðuð við atvinnuleysisbæturnar. Það væri ágætt að ráðherrann kæmi hér upp og staðfesti að hann þyrfti að endurskoða þetta í ljósi nýrra kjarasamninga. Það er því ekkert skrýtið þótt hér sé spurt hvort ríkisstjórnin ætli enn eina ferðina að haga sér með sama hætti og áður, að setja allt í öngþveiti hér í þinginu í lok þinghlés fyrir jólin. Það er auðvitað eðlileg spurning sem hér er sett fram, hvað ríkisstjórnin ætli sér að fá afgreitt af málum. Ég óska eftir því að hæstv. ríkisstjórn geri forsætisnefnd þingsins grein fyrir því og setji fram málaskrá um það hvað á að afgreiða fyrir jólin þannig að þingmenn geti skipulagt störf sín í þingnefndum.