132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:13]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég held að það séu ákaflega ánægjuleg tíðindi hversu vel þingstörfin hafa gengið og ganga um þessar mundir og það er ekki ástæða til annars en ætla það að starfsáætlun Alþingis standist fullkomlega núna.

Þau tíðindi gerðust í gær að samkomulag náðist milli aðila vinnumarkaðarins. Ég reikna ekki með því að menn setji á langt málþóf um þau mál í sölum Alþingis en að almenn samstaða verði um að ljúka þeim málum eins og til var stofnað. Fjárlagavinnan gengur vel þannig að hér er allt með besta móti. Auðvitað er alltaf skemmtilegt þegar áhyggjur hv. þingmanna Samfylkingarinnar birtast með þessum hætti en við erum á góðu róli með störf þingsins og það er full ástæða til að það komi skýrt fram að hér er allt í góðu standi. Samfylkingin þarf þess vegna ekki að hafa stórar áhyggjur af störfum þingsins og við getum vonandi staðið við starfsáætlun og komist í jólafrí á tilætluðum tíma.