132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:18]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Það er eins og sé verið að innleiða hér nýjan sið við upphaf þingfundar að hv. formaður Samfylkingarinnar hefji þingfund á því að kveðja sér hljóðs um það sem heitir í þingsköpum Um störf þingsins, sem virðist vera að þróast í að vera sögustund formanns Samfylkingarinnar, og talar þá ýmist um störf þingsins núna eða eitthvað utan þingsins.

Ég hélt satt að segja, frú forseti, að að þessu sinni kæmi formaður Samfylkingarinnar hér upp til að lýsa ánægju sinni með það að samkomulag skuli hafa náðst í gær milli fulltrúa atvinnulífsins, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ, ekki síst með tilstyrk ríkisstjórnarinnar, myndarlegu útspili ríkisstjórnarinnar sem réð úrslitum um að þar náðist samkomulag. Ég hélt, frú forseti, að það væri tilefni þess að hv. formaður Samfylkingarinnar kæmi upp til að ræða um störf þingsins. Nei, frú forseti. Það var öðru nær. Hér er blásið upp eins og hér sé bara allt í kalda koli í þinginu, hér liggi háir staflar af óafgreiddum málum. En það er ekki svo, frú forseti. Stærsta mál haustþingsins, fjárlagafrumvarpið, er á góðri siglingu. Það hefur orðið mjög ánægjuleg breyting á vinnuháttum og ef það er til þess að róa hug hv. formanns Samfylkingarinnar þá bíða engin mál afgreiðslu í þingflokki Framsóknarflokksins. Hér gengur allt eðlilega og ég bið hv. formann þingflokks Samfylkingarinnar um að taka því rólega og fagna því að í gær skuli hafa náðst samkomulag milli aðila vinnumarkaðarins og að þar með getum við séð fram á mjög bjarta tíð í íslensku samfélagi.