132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:22]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Það er rétt að taka það fram, svo það misskiljist nú ekki, að ég hef engar sérstakar áhyggjur af því að þingstörf gangi ekki ágætlega frá degi til dags. Ég hef áhyggjur af verkleysinu í ríkisstjórninni. Ég hef áhyggjur af verkleysinu þar. Ef það eru engin mál sem bíða hjá ríkisstjórninni og engin mál sem bíða hjá þingflokkunum, eins og hér kom fram, hvernig stendur þá á því að af 179 mála lista skuli einungis fimm stjórnarfrumvörp sem ekki tengjast EES eða fjárlögum hafa komið fram í þinginu. Það segir okkur auðvitað að það er algert verkleysi á stjórnarheimilinu. Ég veit ekki hvort það er vegna þess að þeim líði eitthvað illa saman, ég hef ekkert verið að spekúlera í því sérstaklega. En hæstv. utanríkisráðherra gerði að umtalsefni hér að þeim liði ekkert sérstaklega illa saman. Mér er í rauninni alveg sama hvort þeim líður vel eða illa. Ég vil bara að þessi ríkisstjórn vinni og komi fram með mál og það hefur hún ekki gert. Hún er verklaus, ríkisstjórnin, og hún hlýtur auðvitað að þurfa að sýna eitthvað af þessum 179 málum sem voru á listanum þegar forsætisráðherra talaði fyrir stjórnarstefnunni í upphafi þings.

Virðulegur forseti. Mér finnst þeir menn sem hér koma upp og tala fyrir hönd ríkisstjórnarinnar heldur argir og gleðisnauðir. Ég skil ekki af hverju mönnum þarf að vera svona uppsigað við það að hér fari fram umræða um þingstörfin og hvort menn ætli ekkert að vinna verkin sín í ríkisstjórninni. Það er alveg óþarfi að reiðast yfir því, hv. þingmenn, þó að það sé vakin athygli á því hversu illa gengur hjá ríkisstjórninni en mér sýnist að það sé það helsta sem einkennir þá sem koma hér upp. Það sé svona hvað þeir eru gleðisnauðir og reiðir yfir því að vakið sé máls á hlutum í þinginu.