132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Athugasemd um 54. gr. þingskapa.

[12:29]
Hlusta

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Guðmundur Magnússon, sem nú tekur sæti á Alþingi, er bundinn við hjólastól svo að hann verður að tala úr sæti sínu, svo sem heimilað er í 54. gr. þingskapa. — Það var raunar almenn venja á Alþingi áður fyrr.

Ræðustóll Alþingis er ekki þannig útbúinn að þingmaður í hjólastól komist þangað. Ég bað hins vegar skrifstofu þingsins að gera þær ráðstafanir sem unnt væri á skömmum tíma til að þingmaðurinn gæti sinnt störfum sínum í þingsalnum á sem eðlilegastan hátt þrátt fyrir fötlun sína. Í því skyni hefur m.a. verið komið fyrir nýrri sjónvarpsútsendingarvél sem tekur mið af því að þingmaðurinn talar úr sæti sínu.

Alþingi er á sama báti og nágrannaþingin að þessu leyti, samkvæmt upplýsingum sem skrifstofan hefur fengið. Þar er hugað að endurbótum og það verður einnig gert hér.