132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ill meðferð og pyndingar Bandaríkjamanna á föngum sínum í fangelsum í Afganistan og einkum þó í hinu illræmda Abu Ghraib-fangelsi í Írak eru alþekktar. Sama á við um hundruð fanga, aðallega frá Afganistan sem bandaríska leyniþjónustan og bandaríski herinn hafa flutt og geymt í búrum í herstöðinni við Guantanamo-flóa á Kúbu. Þar er föngum haldið, þeir geymdir við ómannúðlegar aðstæður árum saman og án þess að þeim sé birt ákæra. Bandarísk stjórnvöld neita því að viðkomandi njóti verndar sem stríðsfangar og þaðan af síður sem óbreyttir borgarar og reyna að skapa nýtt hugtak utan laga og alþjóðaréttar með tali um réttlausa vígamenn eða hryðjuverkamenn.

En margföld mannréttinda- og lögbrot bandarískra stjórnvalda í meðferð fanga eru ekki þar með upptalin. Í ljós hefur komið að bandaríska leyniþjónustan CIA stundar mikinn feluleik í sambandi við flutninga á föngum um heiminn og felur sig á bak við leppfyrirtæki til að dulbúa flug á vegum opinberra aðila sem einkaflug, sem auðvitað er einnig lögbrot. Rökstuddur grunur er um að fangar séu vísvitandi fluttir til landa þar sem pyndingar viðgangast og harðneskjuleg meðferð á föngum er látin óátalin. Leynifangelsi á nokkrum vel völdum stöðum í heiminum, þar á meðal í fleiri en einu Austur-Evrópuríki er það nýjasta í þessum málum. Því miður virðist hafið yfir vafa að slíkt dulbúið, ólöglegt fangaflug með einstaklinga sem mannréttindi eru gróflega brotin á hafi margoft farið um íslensku lofthelgina og bæði Keflavíkurflugvöllur og Reykjavíkurflugvöllur hafi verið notaðir í því skyni. Að minnsta kosti vel á annan tug flugvéla sem hafa margar hverjar lent hér margoft hafa komið þar við sögu á síðustu fjórum árum. Vélar hafa komið frá eða farið til flugvalla eins og Sola-flugvallar við Stavanger, Kastrup, Álaborg og Billund í Danmörku, Arlanda og Bromma í Svíþjóð, Luca-flugvallar á Möltu, Búdapest í Ungverjalandi, Mombay á Indlandi, Dubai í Sameinuðu arabísku furstadæmunum og fleiri og fleiri staðir. Í a.m.k. tveimur tilvikum hafa flugvélar farið hér um og lent sem átt hafa viðkomu í Guantanamo-herstöðinni á Kúbu á svipuðum tíma. Vél með flugnúmer N35NK sem lenti hér 11. desember 2004 og 28. janúar 2005 og vél með flugnúmer N1HC sem lenti á Íslandi bæði 25. ágúst 2002 og 30. nóvember 2004. Ég hef því leyft mér að spyrja hæstv. utanríkisráðherra af þessu tilefni:

Er ráðuneytinu kunnugt um þetta flug og að íslensk lofthelgi og íslenskir flugvellir hafi verið notaðir? Ef svo er, munu íslensk stjórnvöld meina flugvélum eftirleiðis með fanga eða slíkt flug að nota íslenska lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum?