132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:15]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Stöðugt berast ábendingar, staðhæfingar og upplýsingar um falsfréttir og blekkingar sem lagðar voru fram til að réttlæta ólögmæta innrás í Írak. Ábendingar um að íslensk lofthelgi og flugvellir hafi verið notaðir til ólöglegra fangaflutninga eigum við þar af leiðandi að taka mjög alvarlega. Við megum ekki gleyma því að allt tengist þetta innrásinni í Írak og við erum á lista hinna viljugu þjóða. Því tel ég mikilvægt að upplýst verði við þessa umræðu og er tengt þessu máli hversu víðtæk heimild íslenska ríkisins er til bandarískra yfirvalda á notkun flugvalla og lofthelgi í baráttunni við hryðjuverkamenn, eins og kom fram við stuðning okkar við ólögmæta innrás í Írak.