132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:23]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Frú forseti. Það fer auðvitað ekkert á milli mála að pyndingar samrýmast ekki alþjóðalögum og eru fordæmanlegar og forkastanlegar í öllum tilvikum. Ég hélt ekki að það þyrfti að taka fram í þessum sal. En það er ekki lögbrot eða ólöglegt að flytja fanga milli staða. Það er gert á hverjum einasta degi innan lands og utan og slíkur flutningur fer fram í lofthelgi Íslands áreiðanlega mjög oft án þess að ástæða sé til að (Gripið fram í.) gera veður út af því.

Við höfum ekki í höndum upplýsingar um að um lofthelgi okkar eða flugvelli okkar hafi farið flugvélar með fanga sem hafi átt að flytja til pyndinga og það er kjarninn í þessu máli. Við höfum ekki upplýsingar um það. Við mundum ekki leyfa það og við fordæmum að sjálfsögðu allt sem viðkemur slíku. Það liggur alveg fyrir. Þetta eru alveg skýr svör af minni hálfu.

Við höfum hins vegar ekki fengið enn þá að mínum dómi fullnægjandi svör við fyrirspurnum okkar hjá Bandaríkjastjórn. Við höfum látið afstöðu okkar í þessum málum koma skýrt fram gagnvart þeim, eins og ég gat um áðan, látið það koma fram að við gengjum út frá því að flutningar sem þessir hefðu ekki átt sér stað án okkar vitundar og afstaða okkar gagnvart Bandaríkjamönnum er alveg skýr og mótmæli Dana voru ekki mikið formlegri en þetta, hv. þingmaður.