132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra hvort fyrirætlanir séu uppi um að tryggja þeim ríflega 20 þúsund íbúum landsbyggðarinnar sem eru án háhraðanettengingar aðgang að slíkri nettengingu á næsta fjárlagaári. Ef svo er hver er sú áætlun skipt eftir landsvæðum?

Tilefni fyrirspurnarinnar eru margvísleg, fyrst og fremst sú staða sem uppi er og kom fram í svari hæstv. samgönguráðherra við fyrirspurn minni sem laut að því hvaða sveitarfélög á landinu hafi háhraðatengingar og hver ekki, hver sé íbúafjöldi þeirra sveitarfélaga sem ekki hafa háhraðatengingar sundurgreint eftir sveitarfélögum. Því svaraði hæstv. ráðherra skilmerkilega á þar síðasta þingi og kom fram að um 22 þúsund Íslendingar höfðu ekki aðgang að háhraðanettengingu, sem er mjög alvarlegt mál í þeirri búsetu- og byggðaþróun sem á sér stað núna þegar fólk flykkist á milli landsvæða. Aftur eru að eiga sér stað fólksflutningar út fyrir hið eiginlega höfuðborgarsvæði út á jaðra svæðisins og má segja að mikið rót fylgi þessum búferlaflutningum.

Í dag heyrir það til algerrar grunnþjónustu líkt og vatn, rafmagn og hiti þegar fólk velur sér búsetu, að hafa aðgengi að háhraðanettengingu. Það er ekki hægt að bjóða börnum sínum, unglingum eða heimilisfólki almennt upp á að ekki sé aðgengi að háhraðanettengingu þar sem einfaldlega er verið að setja þær byggðir hjá ef litið er til atvinnumöguleika, möguleika til fjarnáms og almennrar notkunar á netinu sem í dag heyrir til grundvallarþátta í daglegu lífi og allt byggist á. Það er mjög mikilvægt byggðanna vegna. Þær byggðir sem ekki búa við háhraðanettengingu eru annars flokks. Þær eru settar hjá.

Ég hef ítrekað skorað á hæstv. ráðherra að beita sér fyrir því að í gegnum okkar öflugu samgöngufyrirtæki með aðstoð hins opinbera verði öllum þessum byggðum veitt aðgengi að háhraðatengingu. Víða er að sjálfsögðu möguleiki að veita slíkt aðgengi í gegnum örbylgju þar sem ekki er fjárhagslega hagkvæmt eða mögulegt að leggja streng. Það má því fara margar leiðir. Þetta er eins og munurinn á kerru og hesti og stórvirkum vinnuvélum. Í nútímabyggð verður að vera til staðar háhraðatenging. Því hef ég lagt þessa spurningu fyrir hæstv. samgönguráðherra.

Sums staðar í dag eru einkafyrirtæki eins og eMax, Ábótinn og fleiri að setja upp örbylgjutengingar sem er mjög vel og ágætlega gert. Það er einkaframtak þeirra og það ber að byggja undir og styðja við þau fyrirtæki sem fyrir eru og bjóða dreifbýlinu sums staðar upp á örbylgjuna en fyrst og fremst að öllum íbúum og öllum þessum landsvæðum bjóðist þetta gegn hliðstæðu verði og íbúum þéttbýlisins og með sambærilegum gæðum og álíka öflugum tengingum.