132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Svar mitt við spurningu hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar er svohljóðandi:

Í fjarskiptaáætlun sem hið háa Alþingi samþykkti samkvæmt tillögu minni 11. maí sl. er sett fram svohljóðandi stefna í fjarskiptamálum:

Íslendingar verði í fremstu röð þjóða með hagkvæma, örugga og aðgengilega og framsækna fjarskiptaþjónustu. Í samræmi við þessa stefnu eru sett markmið varðandi ýmsa þætti fjarskiptaþjónustu, þar með talið um háhraðatengingar. Áætlunin gerir ráð fyrir að mörg af þeim markmiðum sem þar eru sett fram náist að verulegu leyti á markaðsforsendum, þ.e. án sérstakra aðgerða af hálfu stjórnvalda. Þar sem markaðurinn leysir ekki þessi mál, þ.e. býður upp á viðunandi þjónustu er við það miðað að stjórnvöld geti komið að málinu.

Fyrir liggur að stjórnvöld munu fjármagna að hluta eftirfarandi þrjú stór verkefni á sviði fjarskipta sem ríkisstjórnin hefur sett í forgang:

Í fyrsta lagi. Að auka aðgengi að farsímaþjónustu á þjóðvegum landsins og um leið öryggi vegfarenda með því að stuðla að aukinni útbreiðslu GSM-farsímanetsins við hringveginn, helstu stofnvegi og fjölfarna ferðamannastaði. Þetta er gert í ljósi þess að farsíminn gegnir mikilvægu hlutverki í samskiptum í nútímaþjóðfélagi auk þess sem ljóst er að almenn eign slíkra farsíma er mikilvægur liður í öryggi viðkomandi þrátt fyrir að GSM-farsímakerfið hafi ekki verið hannað sem öryggiskerfi sérstaklega.

Í öðru lagi. Gert er ráð fyrir að fjármunum verði varið til þess að stuðla að dreifingu stafræns sjónvarps um gervihnött. Nauðsynlegt er að tryggja að sjófarendur og íbúar strjálbýlli svæða sem ekki njóta fullnægjandi þjónustu eigi möguleika á að ná sjónvarpsdagskrá RÚV auk hljóðvarps, Rásar 1 og 2 stafrænt í gegnum gervihnött. Markmiðið er að stafrænt sjónvarp nái til allra landsmanna.

Í þriðja lagi. Sérstaklega er varðar spurningu fyrirspyrjanda er gert ráð fyrir öflugri uppbyggingu á háhraðatengingum á þeim svæðum sem ekki er líklegt að verði þjónað á markaðslegum forsendum. Háhraðatengingar eru einn af grunnþáttum tækninnar sem gerir upplýsingasamfélag nútímans mögulegt. Markmiðið er að hraða þróun upplýsingasamfélagsins þannig að allir landsmenn sem þess óska geti tengst háhraðaneti og notið hagkvæmrar og öruggrar fjarskiptaþjónustu. Í áætluninni segir að allir landsmenn sem þess óska hafi aðgang að háhraðatengingu árið 2007.

Þess má geta að síðustu bæirnir við Djúpið voru að tengjast netinu og Síminn er að ljúka síðasta áfanga við tengingu samkvæmt alþjónustukvöð sinni. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins verður í byrjun næsta mánaðar búið að tengja alla Íslendinga við netið sem þess hafa óskað. Þetta er auðvitað bylting fyrir þá sem hlut eiga að máli.

Skilgreining á háhraðatengingu er ekki einhlít og tekur mið af þörfum hvers og eins á hverjum tíma sem velur sér hraða við hæfi. Hraði í notkun í dag hefur ekki verið kortlagður sérstaklega en þarfirnar eru mjög misjafnar. Í áætluninni er reynt að spá fyrir um ákveðna þróun í þeirri bandbreidd sem almenningi í þéttbýli stendur til boða á viðráðanlegu verði. Þegar liggur fyrir að flestir Íslendingar sem þess óska eiga val um fleiri en eina leið til að tengjast internetinu og eiga oftast aðgang að hraða sem hentar þörfum viðkomandi. Samkvæmt upplýsingum ráðuneytisins m.a. frá fjarskiptafyrirtækjum og Póst- og fjarskiptastofnun geta um 95% landsmanna nú þegar tengst háhraðanetum sem eru í samræmi við viðmið áætlunarinnar í formi xDSL ljósleiðara, kapal og þráðlaust, þ.e. örbylgju WiMAX eða gervihnött. Leysa þarf því vanda þeirra tæplega 5% sem eftir standa með skipulegum hætti með lausnum sem horfa til framtíðar en eru tæknilega óháðar. Þessi hópur er bundinn við ákveðin landsvæði. Miðað er við að ríkið geti komið að málum þar sem ekki eru markaðslegar forsendur fyrir hendi. Miðað er við að þessi þáttur fjarskiptaáætlunar komi til framkvæmda á árunum 2006–2010 og er unnið að útfærslu um þessar mundir.

Ákveðið hefur verið að skipa sérstaka verkefnisstjórn sem haldi utan um framkvæmd fjarskiptaáætlunar. Verkefnisstjórnin verði jafnframt stjórn fjarskiptasjóðs sem mun fjármagna þau verkefni í áætluninni sem stjórnvöld taka þátt í. Ljóst er að háhraðavæðingin er stórt verkefni sem stjórnvöld verða að vanda sig við. Ráðuneytið hefur ákveðið að fela Póst- og fjarskiptastofnun þetta verkefni í samræmi við ákvæði 23. gr. fjarskiptalaga. Stofnunin mun nú hefjast handa við undirbúning verkefnisins og nánari útfærslu þess og við munum nýta þá fjármuni sem sala Símans hefur gefið okkur færi á og er til umfjöllunar á hinu háa Alþingi.