132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:35]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. samgönguráðherra fyrir svörin. Það er alveg ljóst að það eru mjög framsæknar hugmyndir sem liggja að baki þeirri samgönguáætlun sem nú er í gildi. Og af þeirri ástæðu að Síminn var seldur er nú hægt að fjármagna það að þau 5% notenda sem ekki hafa haft aðgang að háhraðatengingu komist í samband við háhraðanet.

Þetta skiptir gífurlega miklu máli. Þetta er eitt stærsta byggðamálið að mínu mati og þegar við förum og hittum fólk í hinum dreifðu byggðum verðum við mjög vör við það hversu geysilega mikið mál þetta er, bæði varðandi atvinnusókn en ekki síður hvað varðar það að ná sér í menntun en það hefur aukist mjög að fólk um hinar dreifðu byggðir sæki sér framhaldsmenntun í gegnum tölvukerfið.