132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:40]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp örstutt til að hvetja hæstv. samgönguráðherra áfram til dáða í þessum efnum því ég leyfi mér að segja að háhraðatenging eða tenging við internetið er partur af grunnþörfum fólks alveg eins og hiti, vatn og rafmagn. Ævintýri netsins eru slík, allur aðgangur að upplýsingum, möguleikar til að senda frá sér upplýsingar, finna gögn og annað á netinu, þetta er náttúrlega alger bylting og sjálfsagt mannréttindamál að allir landsmenn hafi aðgang að þessu. Mér sýnist við vera á ágætri leið með þessa hluti, að mörgu leyti. Ef hér kemur stafrænt gervihnattasjónvarp þá erum við í góðum málum hvað það varðar. Ef okkur tekst að halda áfram að koma á góðu GSM-sambandi víða um land og reynum jafnframt að halda í NMT-kerfið, en mér þykir vænt um það kerfi og vil sjá að það verði áfram eftir árið 2007. Síðan þegar það bætist við að við náum að landa þessum 20 þúsundum sem eiga eftir að fá háhraðanet þá held ég að við séum í fínum málum.