132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Háhraðanettengingar.

117. mál
[13:41]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Frú forseti. Ég fagna því að hæstv. samgönguráðherra lýsir yfir vilja sínum til að háhraðavæða dreifbýlið sem út af er sett nú á næstu missirum og að hluti símasilfursins verði notaður til þeirrar mikilvægu uppbyggingar, enda ekki nema sanngjarnt að svo sé.

Ég vil skora á hann að beita sér fyrir því að þeirri uppbyggingu ljúki fyrr en seinna því það er ekki ofmælt þegar sagt er að aðgengi að einhvers konar lágmarksnettengingu, háhraðatengingu, liggi búsetu að mörgu leyti til grundvallar sérstaklega þegar yngra fólk er að velja sér búsetu. Sjálfur gæti ég ekki haft daglega fasta búsetu austur í Gnúpverjahreppi ef ég væri ekki svo heppinn að einkafyrirtæki byði þar upp á örbylgjusamband sem er alveg viðunandi þokkalegur háhraði og má segja að bæti úr brýnustu þörfinni. Þess vegna er ástæða til að skora á yfirvöld og hvetja hæstv. ráðherra til að beita sér af fullu kappi fyrir því að þessar fyrirætlanir hans gangi eftir. Það eru tímamót og það eru tíðindi og ég fagna því að á borðinu liggi fyrirætlan um að ljúka háhraðavæðingunni fyrir þessi 5–10% sem eftir standa á næstu 18 mánuðum. Ég skora á hann að flýta því eins og nokkur kostur er. Þetta er bylting fyrir sveitirnar, bylting fyrir byggðirnar úti á landi að fólk geti stundað bæði nám og vinnu í gegnum tölvuna heima hjá sér og oft fer þetta saman. Þetta skiptir öllu máli. Þetta opnar nýjar víddir og ný tækifæri fyrir byggðirnar. Upplýsingahraðbrautin er grundvallaratriði í nútímanum. Þess vegna er ástæða til að fagna þessari fyrirætlan og hvetja hæstv. ráðherra til að fylgja henni fast eftir af kappi.