132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:04]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði í umræðu um daginn þegar ég spurði hann um afstöðu hans til veggjalda á Sundabraut að það væri til umræðu innan ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson staðfesti það áðan að það er skilningur Framsóknarflokksins að enn sé uppi sá möguleiki, a.m.k. af hálfu Framsóknarflokksins, að leggja á veggjöld á Sundabraut. Þess vegna fagna ég því að hæstv. samgönguráðherra hefur tekið af skarið og raunverulega ýtt þessum þrýstingi Framsóknarflokksins á veggjöld á Sundabraut út af borðinu með því að segja að ekki verði tekin upp veggjöld á Sundabraut.

Frú forseti. Það verður að greina á milli annars vegar einkaframkvæmdar og hins vegar veggjalda. Það er alveg hægt að ráðast í einkaframkvæmd án þess að með fylgi veggjöld. Hins vegar var athyglisvert, væntanlega fyrir Siglfirðinga og kjósendur hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að hann sagði að auðvitað hefði sú aðferð sem beitt var við Hvalfjarðargöngin verið fordæmi sem þyrfti að fylgja. Hv. þingmaður er farinn að segja að taka eigi upp veggjöld í Héðinsfjarðargöngin.