132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Mikilvægt er í þessari umræðu að hafa þá sýn klára að þjóðvegirnir eigi að vera eign þjóðarinnar, en ekki eitthvað sem einkaaðilar ráðast í til að hafa síðan fé af þegnunum fyrir. Þetta er mjög mikilvægt. Ég hef aldrei skilið þau rök að einkaaðilar í einkaframkvæmd eigi að komast að betri kjörum en ríkissjóður í að framkvæma vegalagnir eða jarðgöng. Hvað um það. Það á að binda svo um hnútana að þó að menn álpist til að fara í eitthvað sem menn kalla einkaframkvæmd verði hún innan ákveðins tiltekins tíma eign þjóðarinnar og ekki sé verið að skattleggja vegfarendur sérstaklega.

Gjaldtakan um Hvalfjarðargöngin er að mínu viti orðin næg. Við ættum nú að huga að því hvernig megi fella þau niður þannig að þau verði almannaþjóðvegur eins og aðrir þjóðvegir á landinu.