132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[14:07]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég tel að það sem hér skorti á sé einfaldlega vilji hæstv. samgönguráðherra að taka á þessu máli. Menn eru með alls konar fyrirslátt en raunverulegan vilja skortir. Það á einfaldlega að hætta gjaldtöku. Það eru engin rök fyrir því að halda uppi gjaldtöku bara á þessum stað.

Við höfum heyrt hér að menn hafi verið að dreifa símapeningum í hin og þessi verkefni og mér finnst þetta vera verðugt verkefni. Ég vil að hæstv. samgönguráðherra ræði það hvort til greina komi að nota þá peninga til að greiða þetta einfaldlega upp og hætta fyrirslætti um tæknilegar hindranir á hinu og þessu. Þetta snýst um vilja, ekki annað.

Eins vil ég minna á frumvarp sem við í Frjálslynda flokknum höfum lagt fram varðandi það að fella niður virðisaukaskattinn. Það snýst einnig um vilja, vilja hæstv. samgönguráðherra. Vill hann halda gjaldtöku áfram á fólk sem fer um þessi göng sem er aðallega fólk af Vesturlandi? Mér finnst að þetta snúist einfaldlega um vilja og ég vona að hæstv. ráðherra svari því skýrt.