132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:20]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég get alveg tekið undir þau orð hæstv. samgönguráðherra að gerbylting hefur orðið í vegamálum í gegnum Mosfellsbæinn á undanförnum árum. En betur má ef duga skal. Ég lýsi því líka yfir að ég er sammála því að okkur ber að vinna að því að tvöfalda þennan veg upp að Þingvallaafleggjaranum.

En ég vil segja í ljósi þeirra ummæla sem féllu áðan um Sundabrautina og hugsanlega fjármögnun á henni hjá hæstv. samgönguráðherra, sem mér heyrist að hafi kannski verið ákveðin tímamótayfirlýsing sem kannski eigi eftir að marka vatnaskil í þessari umræðu þegar fram líða stundir, þ.e. að hægt verði að fara út í Sundabrautina án gjaldtöku með þessari skuggagjaldaleið, að þá sé rétt að menn staldri við þegar þeir verða komnir með þennan veg upp að Þingvallaafleggjaranum en noti síðan peningana áfram í það að vinna að því að við náum að leggja Sundabrautina alla leið upp á Kjalarnes.