132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Tvöföldun Vesturlandsvegar.

198. mál
[14:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka samgönguráðherra og öðrum sem hafa tekið þátt í þessum umræðum. Samgönguráðherra sagði að bráðabirgðalausnin 2+1 væri mikil bragarbót. Ég verð að viðurkenna að ég skildi ráðherrann ekki betur en svo að þetta væri endanleg lausn. Það hefur ávallt verið rætt um þetta sem bráðabirgðalausn. En það kom hvergi fram í svörum ráðherra hvenær farið yrði í að tvöfalda þennan kafla. Ég spyr því og ítreka: Er hér ekki verið að tala um bráðabirgðalausn? Er hér verið að tala um endanlega lausn, þ.e. 2+1 á kaflanum frá Skarhólabraut að Langatanga? Ef ekki, hvenær er þá áætlað að fara í tvöföldun alla leið? Ég minni á að þarna er um að ræða aðgerð sem hefur verið frestað.