132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Mörður Árnason) (Sf):

Forseti. 16. september síðdegis gerðist það að fjórar herflugvélar breskar flugu hér yfir með nokkrum gný og lentu á Reykjavíkurflugvelli. Það vissu menn ekki sem hér voru að störfum eða á heimilum sínum í miðbæ Reykjavíkur og nágranna- og grannhverfum þess allt suður í Skerjafjörð heldur hrukku við gríðarlegan gauragang og hávaða sem hér varð, ekki einu sinni heldur fjórum sinnum, og vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Satt að segja var hávaðinn það mikill yfir mér sem var hér hinum megin við Austurvöllinn að vinna að maður bjóst eiginlega við því að nú færu sprengjurnar að fjalla því að slíkt gerist almennt í kvikmyndum við slíkan hávaða.

Á þessu flugi hafa í raun ekki borist neinar skýringar frá viðeigandi yfirvöldum, hvað þá að breski herinn, flugmálastjórn eða hæstv. samgönguráðherra hafi beðist afsökunar á þeirri truflun sem varð með þessum látum yfir vinnustöðum og íbúðabyggð í Reykjavík. Þess vegna er kominn tími til þess fyrir nokkuð löngu að hæstv. samgönguráðherra skýri út fyrir þingheimi og a.m.k. Reykvíkingum hvað þarna var á ferðinni. Ég spyr þess vegna hvort stjórnvöld hafi brugðist með einhverjum hætti við þessu flugi og hvort megi eiga von á frekara lágflugi herflugsveita, sem þetta var, yfir miðborg Reykjavíkur og íbúasvæðin umhverfis.

Ég vil bæta við enn einni spurningu um raunverulegt erindi þessara flugvéla því það sem kom fram á heimasíðu Flugmálastjórnar um þetta — ekki var getið um hávaðann í þeirri frétt — var að þessir bresku flugmenn væru að æfa flug yfir hafið. Þeir komu hér á föstudegi og fóru á mánudegi svona eins og í helgarferð. Það er ástæða til að vonast eftir svari við því hvort ekki séu reglur um að slíkar flugvélar sem hér um ræðir séu búnar blindflugstækjum og hvort ekki leiði af þessum viðburði að á Keflavíkurflugvelli verði aftur komið upp búnaði til ratsjárleiðsögu, en hann mun hafa vantað — það er er eitt af því sem herinn hefur tekið heim til sín til Ameríku — sem þýðir að þessar bresku flugvélar gátu ekki lent þar við þessar aðstæður sem hér voru. Spurning er líka auðvitað: Var ekki tilkynnt áður en Bretarnir fóru af stað, hvaða búnaður væri þar fyrir hendi eða var tekinn sénsinn á því að íbúar í miðbæ Reykjavíkur og fólk þar á vinnustöðum mundi afsaka þetta flug?

Að lokum segir í frétt í Morgunblaðinu 23. september um þetta frá Flugmálastjórn að hún ætli, með leyfi forseta, að kanna „hvort ástæða sé til að skerpa á reglum varðandi flug slíkra flugvéla“ — nefnilega herþotna — „um Reykjavíkurflugvöll.“

Við vonumst líka eftir fréttum (Forseti hringir.) af þessari könnun Flugmálastjórnar.