132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:32]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þennan pirring yfir því að hingað skuli hafa komið fjórar Harrier-herþotur frá hinum konunglega breska flugher. Við verðum að muna að við erum í varnarbandalaginu NATO og mér finnst það sjálfsagður og eðlilegur hlutur að vinir okkar komi og heimsæki okkur, hvort sem þeir koma fljúgandi eða siglandi. Mér finnst alltaf jákvætt og gaman þegar hingað koma herdeildir, flotadeildir frá NATO til að mynda, og heimsækja okkur á sumrin. Mér finnst það hið besta mál þó að hingað komi herþotur og lendi á flugvellinum. Það er sjálfsagður hlutur. Við erum í varnarbandalagi. Þetta eru vinir okkar og við eigum að heilsa þeim, taka þeim fagnandi og gera vel við þá. Það er eðlilegt að þeir æfi flug yfir hafið, til að mynda frá Skotlandi, því að ef í harðbakkann slær gæti svo farið að við þyrftum einmitt að kalla á hjálp frá þessum vinum okkar. Þá yrðu þeir að fljúga yfir hafið, hvort sem það yrðu heldur Bretar, Norðmenn, Þjóðverjar eða Bandaríkjamenn. Þetta er bara hið besta mál og fylgir því að vera í varnarbandalagi.