132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:39]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Það er athyglisvert, sem kemur fram í þessari umræðu, að gamlir alþýðubandalagsmenn nota tækifærið og brjótast svolítið um gagnvart þessum herþotum. Staðreyndin í þessu öllu saman er hins vegar að ég gaf enga yfirlýsingu um það, öfugt við það sem fram kom hjá hv. fyrirspyrjanda, að gera mætti ráð fyrir því að stöðugt ónæði yrði af herflugvélum sem kæmu til Reykjavíkurflugvallar. Ég sagði að þetta væri undantekningartilvik en hins vegar væri Reykjavíkurflugvöllur varaflugvöllur á svæðinu og þess vegna væri hann nýttur.

Hins vegar vil ég taka undir að við þurfum að reka Reykjavíkurflugvöll þannig, og það gerir Flugmálastjórn, að sem minnst ónæði verði af fluginu. Þess vegna hefur mjög verið dregið úr snertilendingum á Reykjavíkurflugvelli. Kennsluflugið er þar að sjálfsögðu áfram. Hv. þm. Kristján L. Möller ætti að hlusta núna þar sem hann spurði um það. Það er lögð rík áhersla á að snertilendingar verði sem minnstar en kennsluflugið er á Reykjavíkurflugvelli og því fylgir að sjálfsögðu umferð. En það er reynt að hafa hana í lágmarki og reynt að gera ónæði frá fluginu sem minnst.

Hvort hægt hafi verið að lenda annars staðar hef ég ekki upplýsingar um, vegna fyrirspurnar sem kom fram hjá hv. þm. Jóhanni Ársælssyni. Það kann að vera hægt að fá upplýsingar um það síðar en þær upplýsingar liggja ekki fyrir á þessari stundu.