132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:45]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal spyr: „Hafa verið gerðar ráðstafanir til að tryggja vegasamgöngur ef til eldgoss kemur í Kötlu?“

Svar mitt er: Tekið skal fram að farið hefur verið sérstaklega yfir allan öryggisbúnað vegna hugsanlegs eldgoss í Kötlu. Þetta á ekki síst við um búnað til að loka vegum ásamt því hvernig að því yrði staðið en einnig hefur verið farið yfir öryggisbirgðir sem hugsanlega þyrfti að grípa til ef til eldgoss kæmi. Það er vissulega að mörgu að hyggja. Þá hafa verið gerðar nokkrar endurbætur á Fjallabaksleið nyrðri með tilliti til þess að hún yrði hugsanlega notuð sem varaleið ef til goss kæmi. Ljóst er að verulega erfitt gæti reynst að nota þá leið, ekki síst að vetri til, og því nauðsynlegt að taka það með í reikninginn.

Í annan stað er spurt: „Telur ráðherra skynsamlegt að flýta brúargerð yfir Jökulsá á Fjöllum vegna hættu á að vegasamband um Suðurland rofni í slíkum eldsumbrotum?“

Svar mitt er: Sú brú tekur allan almennan umferðarþunga en ekki hækkaðan þunga og þurfa stórflutningar að fara um brúna á Jökulsá í Öxarfirði. Af þessum sökum er þörf á að huga að endurnýjun brúarinnar á hringveginum yfir Jökulsá á Fjöllum. Það er óhjákvæmilegt. Sú þörf er óháð hugsanlegu gosi í Kötlu þótt það gæti vissulega kallað á aukna flutninga um brúna. Svar mitt er á þann veg að það er augljóst að huga þarf að þessari brúargerð.