132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:47]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Ég skal játa að ég hélt að ég hefði misskilið eða mislesið þessa fyrirspurn. Innleiðing hennar lýtur að þeirri ógn sem stafar af væntanlegu eldgosi í Kötlu, sem er jú á Suðurlandi, en síðan lýtur spurningin sjálf að brúargerð á Norðurlandi. En nú hefur hv. þm. Halldór Blöndal útskýrt það og þakka ég honum fyrir þær upplýsingar.

Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort til séu áætlanir um hvaða brýr eigi að taka af á þjóðvegi 1 á Suðurlandi, hver sé kostnaður við að endurbyggja þar og hvort til séu einhverjar neyðaráætlanir þegar, ég held að það sé spurningin um þegar en ekki ef, til Kötlugoss kemur. En ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að upplýsa mig.