132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:49]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mér finnst bæði sjálfsagt og eðlilegt að við höfum vara á okkur varðandi hugsanlegt Kötlugos og ræðum ráðstafanir vegna þess, jafnvel vegasamgöngur og aðra samgönguþætti ef til neyðar kæmi á því svæði. Mér finnst hins vegar dálítið langsótt að tengja það við brúargerð á Norðurlandi því að þó að málum sé því miður hagað með þeim hætti hér á landi í dag að strandsiglingar séu nánast í lamasessi þá eigum við þó eftir sem áður skip sem við hljótum að geta notað til að tryggja flutninga með suðurströndinni þó að til náttúruhamfara kæmi, til að mynda Kötlugoss. Ég er ekki þar fyrir að draga úr þörf á því að þessi brú verði löguð eða að brúargerð á Jökulsá á Fjöllum verði flýtt, alls ekki. Orð mín má alls ekki misskilja með þeim hætti.