132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kötlugos.

204. mál
[14:50]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég tek það ekki alvarlega að verið sé að reyna að hressa svo upp á Fjallabaksleið nyrðri að hún geti komið í staðinn fyrir hringveginn.

Það er auðvitað svo með Jökulsá í Öxarfirði að menn komast ekki þá leiðina og síðan upp Hólssand fyrr en eftir miðjan júnímánuð því að vegurinn er ófær. Það er auðvitað ekki um það að ræða.

Hitt vekur athygli mína að hér skuli koma upp þingmaður eftir þingmann og ekki skilja að samhengi geti verið á milli þess að samgöngur séu öruggar um Norðurland ef vegir teppast á Suðurlandi. Við getum tekið alla Austfirðina sem dæmi. Austfirðingar fara ýmist Suðurlandið eða Norðurlandið og þess vegna er brýnt fyrir þá sem þar búa, og einnig fyrir þá sem búa í Reykjavík eða á Norðurlandi, að öruggar samgöngur haldist þó komi til eldgosa í fjöllunum sunnan fjalla. Það er kjarni málsins í minni fyrirspurn.

Brúin yfir Jökulsá á Fjöllum er orðin gömul. Hún hefur ekki fullan burð, fram hjá því verður ekki horft. Sú brú hefur ekki fullan burð. Hún er versti farartálminn á hringveginum núna ef um mikla þungaflutninga er að ræða. Það er komið í ljós, eins og ég sagði áðan, og það eru dæmi um það að menn hafa orðið að fara á vaði yfir Jökulsá á Fjöllum og menn skyldu reyna að leika það eftir sjálfir þannig að við erum að tala um alvarlega hluti. Við erum líka að tala um örugga tengingu milli Norður- og Austurlands, tveggja mestu þéttbýlissvæða utan Reykjavíkur. Við erum að tala um að tengja þessi svæði saman. Ég ítreka það því við hæstv. ráðherra að ég vil gjarnan fá um það yfirlýsingu að það verði unnið svo hratt að undirbúningi nýrrar brúar yfir Jökulsá á Fjöllum að af tæknilegum ástæðum verði hægt að bjóða hana út haustið 2006 og í síðasta lagi vorið 2007.