132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Siglufjarðarvegur um Almenninga.

243. mál
[15:10]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Ég beini eftirfarandi spurningum til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hvernig hyggst ráðherra bregðast við nýjum upplýsingum um jarðsig og hættu á stórfelldu jarðfalli og berghlaupi á veginum milli Skagafjarðar og Siglufjarðar um Almenninga?

2. Hve langan undirbúningstíma þyrfti til að hefja gerð jarðganga úr Fljótum til Siglufjarðar ef brýn nauðsyn krefði og hvað mundu slík göng kosta?

Vegurinn um Almenninga til Siglufjarðar var mikil samgöngubót á sínum tíma, en samkvæmt rannsóknum sem gerðar hafa verið nýlega að frumkvæði Vegagerðarinnar er um mjög varasamt ef ekki stórhættulegt vegstæði að ræða. Þetta má lesa í nýlegri skýrslu Náttúrustofu Norðurlands vestra sem falið var að hafa umsjón með verkinu. Skráðar eru heimildir um tíu tilvik um jarðsig á þjóðveginum um Almenninga frá 1916 og síðast sumarið 2004. Fregnir af jarðsigi voru tíðar á síðasta fjórðungi nýliðinnar aldar og í júní árið 1999 féll stór aurskriða úr Kóngsnefi svokölluðu, 60 m breið og 4 m að þykk. Vegurinn var þá allur á hreyfingu. Samkvæmt skýrslunni er vegurinn um Almenninga til Siglufjarðar afar ótryggur svo vægt sé til orða tekið. Auk þess eru þarna mjög hörð vetrarveður og oft mikil ófærð. Þá eru og Strákagöngin barn síns tíma og anna trauðlega eðlilegri umferð um veginn.

Jarðsig á Siglufjarðarvegi hefur verið þekkt vandamál um langan tíma og árlega þarf Vegagerðin að verja töluverðum fjármunum í endurbætur á þeim kafla þar sem sigið er mest og laga þarf veginn á allt að 15–20 stöðum vegna sigs. Í skýrslunni segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Framtíð núverandi vegstæðis Siglufjarðarvegar um norðanvert Tjarnardalaberghlaupið er ekki sérstaklega björt. Vegurinn liggur þar alveg á brún sjávarbakkanna sem þarna eru 70–80 m háir og ljóst er að sigsvæðin neðan við veginn munu ganga lengra inn og upp í hlíðina. Þótt þau ummerki sem sjást þarna í dag bendi ekki til þess að stórar fyllur hafi nýlega fallið úr frambrún sjávarbakkanna er rétt að hafa í huga að þarna eru öll ummerki skriðufalla og hruns fljót að afmást vegna ölduhreyfinga og undangrafta. Miðað við sprungur sem sjást í frambrúninni sem vegurinn liggur um er ekki hægt að gera ráð fyrir öðru en þarna geti fallið stórar fyllur. Talið er að sú hætta aukist eftir því sem hlíðin verður brattari og meira grefur undan henni.“

Það er síðan áréttað aftur í skýrslunni að ljóst sé að mörg vandamál steðji að og ógni vegstæði Siglufjarðar um Almenninga og framtíðarútlitið sé ekki bjart. Því hef ég lagt fyrrgreindar spurningar fyrir hæstv. samgönguráðherra.