132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Siglufjarðarvegur um Almenninga.

243. mál
[15:23]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég held að alveg nauðsynlegt sé að taka það fram eftir ræðu hv. þm. Jóns Bjarnasonar að það er ekkert mjög langt síðan þessi vegur var byggður upp. Það var á meðal fyrstu verka minna sem samgönguráðherra að opna formlega þessa leið með bundnu slitlagi þannig að vegurinn er fullkomlega uppbyggður eins og fram kom hjá hv. þm. Birki J. Jónssyni. Hér er um mikilvæga leið að ræða fyrir Siglfirðinga eins og er, þangað til að Héðinsfjarðargöngin koma. Eftir sem áður verður vonandi umferð um þennan veg um langan aldur. Ég held því að ekki sé vert að vekja upp einhverja úlfúð eða óþarfa áhyggjur manna þarna. Engu að síður þurfum við að vera á vaktinni að þarna gerist ekkert óvænt sem að rofið gæti veginn.

Ég þakka fyrir þessa umræðu. Við þurfum að vera vakandi fyrir því sem þarf að huga að í samgöngukerfinu en umfram allt að gera ekki úlfalda úr mýflugu. Hvað þá að ýta undir óskhyggju manna um jarðgöng úr Fljótum til Siglufjarðar. Því var ýtt út af borðinu með þátttöku Skagfirðinga, Siglfirðinga, Eyfirðinga og annarra sem komu að undirbúningi þessa máls. Um það var tekin ákvörðun, m.a. hér á Alþingi, að leggja jarðgöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar um Héðinsfjarðargöng en leggja ekki jarðgöng inn í Fljótin.

Um þetta verður vafalaust deilt enn um sinn og allar götur þangað til búið verður að opna Héðinsfjarðargöngin.