132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Bílaumferð og varpstöðvar.

262. mál
[15:25]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að bera fram fyrirspurn til hæstv. samgönguráðherra um bílaumferð og varpstöðvar fugla. Hvers vegna skyldi ég gera það? Jú, vegna þess að Ísland er fuglaparadís, ekki síst á sumrin, og á ferðum mínum um landið mörg undanfarin ár, síðsumars, hefur mér gjörsamlega ofboðið að aka um vegi sem liggja um varpstöðvar fugla og koma að þeim vígvelli sem oft á tíðum skapast þar. Einkum og sér í lagi við kríuvörp. Þar liggja dauðir ungar eins og hráviði á veginum eða við veginn og hafa greinilega orðið fyrir bílum.

Aðrar fuglategundir verða líka fyrir skakkaföllum af þessum völdum, sérstaklega ungarnir síðsumars. Ísland er með varp- og uppeldisstöðvar fyrir fjölmargar fuglategundir sem koma hingað á sumrin og skapa hér mikið líf og eru okkur öllum til ánægju og yndisauka. Ég tel því ástæðu til þess að spyrja hvort ekki sé hægt að gera á þessu einhverja bragarbót. Mér finnst að þetta geti ekki gengið svona, því þetta er bæði til tjóns fyrir fuglastofnana og lífríkið. Þetta er líka okkur Íslendingum til vansa út á við, ekki síst með tilliti til erlendra ferðamanna sem koma hingað til lands og verða vitni að þessum ósköpum. Í sumar var þetta vandamál kannski ekki eins mikið og oft áður vegna þess að varp virtist hafa misfarist á mörgum stöðum, einkum og sér í lagi hjá kríunni. Samt sem áður hlýtur það að lagast, því náttúran gengur í sveiflum.

Mig langar að bera fram eftirfarandi spurningar til hæstv. samgönguráðherra:

1. Hafa samgönguyfirvöld gert ráðstafanir til að draga úr hættu á því að villtir fuglar verði fyrir bifreiðum í grennd við varplönd og uppeldissvæði á sumrin, og þá hverjar?

Ég á við einhvers konar viðvörunarskilti, upplýsingagjöf, hugsanlegar hraðahindranir eða eitthvað með þeim hætti.

2. Hafa stjórnvöld yfirsýn yfir staðsetningu og stærð varp- og uppeldissvæða fugla við þjóðvegi landsins?

3. Hafa farið fram rannsóknir á áhrifum bílaumferðar á varpstöðvar hér á landi?