132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Bílaumferð og varpstöðvar.

262. mál
[15:28]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni fyrir þessa fyrirspurn. Hún er athyglisverð og gott innlegg í umræðu okkar um náttúru landsins og áhrif búsetu í okkar fagra landi.

Hv. þingmaður spyr í fyrsta lagi:

,,Hafa samgönguyfirvöld gert ráðstafanir til að draga úr hættu á því að villtir fuglar verði fyrir bifreiðum í grennd við varplönd og uppeldissvæði á sumrin, og þá hverjar?“

Svar mitt er svohljóðandi:

Bráðabirgðamerkið Varúð – varpland – fuglar á vegi, hefur verið sett niður á nokkrum stöðum á landinu, fyrst og fremst eftir beiðni heimamanna á hverjum stað, t.d. í Vík í Mýrdal, á Melrakkasléttu, við Bolungarvík, við Bakkafjöru og við Leiruveg við Akureyri.

Á öllum þessum svæðum er mikið fuglalíf og sums staðar mikil umferð, þó ekki á öllum þessum stöðum. Því er ástæða til þess að mati Vegagerðarinnar og landeiganda að setja upp slík varúðarskilti. Við þekkjum það vel, þingmenn Norðvesturkjördæmis, hvernig krían er í landi Rifs á Snæfellsnesi. Þar er ein allra stærsta kríubyggð í veröldinni og mikil umferð. Það er því ástæða til að vekja athygli á þessu.

Í annan stað spyr hv. þingmaður:

,,Hafa stjórnvöld yfirsýn yfir staðsetningu og stærð varp- og uppeldissvæða fugla við þjóðvegi landsins?“

Svar mitt er að samgönguyfirvöld hafa ekki slíka yfirsýn. Ég tel að eðlilegra væri að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra.

Í þriðja lagi spyr hv. þingmaður:

,,Hafa farið fram rannsóknir á áhrifum bílaumferðar á varpstöðvar hér á landi?“

Svar mitt við þeirri spurningu er nei. Slíkar rannsóknir hafa ekki verið gerðar fyrir landið í heild. Hins vegar er yfirleitt fjallað um fuglalíf og fuglatalning gerð þegar verk fara í umhverfismat. Víða hefur verið lagt í geysilega mikla vinnu við skoðun á fuglalífinu í námunda við þau svæði þar sem á að leggja nýja vegi. Það er mikilvægur þáttur við gerð umhverfismats.