132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Bílaumferð og varpstöðvar.

262. mál
[15:32]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Þetta er mál sem full ástæða er til að tala um og kannski ekki bara út af varplöndunum. Allir þingmenn hljóta að hafa tekið eftir því, þegar fuglarnir koma á vorin, hversu mikið af þeim verður fyrir bílum á þjóðvegum landsins. Mín skoðun er sú að þegar að hraði bíla er kominn yfir 90 km hefjist í raun fugladauðinn. Í langfæstum tilfellum lenda menn í að keyra á fugla ef þeir keyra undir löglegum hraðamörkum. Ég held að þetta sé hluti af því að menn komi sér upp umferðarmenningu sem ekki yrði til að menn slátri þessum gestum á vorin.

Ég legg til að reynt verði að skoða þetta og menn reyni að átta sig á hvaða hraði það er sem skiptir þarna máli. Í varplöndunum skiptir hraðinn auðvitað meira máli, en á vegunum sjálfum held ég að það skipti einnig máli að halda hraðanum við lögleg mörk í landinu.