132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Stofnun stjórnsýsludómstóls.

122. mál
[15:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil taka það fram að mér finnst upphæðin, þ.e. 336 milljónir í þessar úrskurðarnefndir, segja að hér sé hægt að ná árangri. Ef við lítum til þess að hæstv. forsætisráðherra hefur boðað það að tekið verði á í stjórnsýslunni og hún gerð ein sú skilvirkasta í heimi, að mig minnir undir kjörorðinu einfaldara Ísland, þá finnst mér þetta verkefni blasa við, frú forseti. Það fara í 336 milljónir 42 nefndir.

Ég vil greina hæstv. dómsmálaráðherra frá því hér að ég hef leitað til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, eins og áður segir. Ég lagði þar fram kvörtun. Það er ekki enn þá komið svar og nú er komið á annað ár síðan. Ég tel það algjörlega óþolandi stjórnsýslu sem starfar eins og ég greindi frá, þ.e. að málsaðilar fái ekki gögn sem mótaðili hefur beint til stjórnsýsluúrskurðar, stjórnsýslunefndar. Þetta er ekkert eina dæmið. Dæmin eru mörg, því miður. Mér finnst að hæstv. dómsmálaráðherra ætti að líta til þess hvað þetta er mikið fé, hvað þetta eru margar úrskurðarnefndir og hvað þær fjalla um veigamikil mál. Mér finnst blasa við að þarna er hægt að ná árangri, frú forseti. Hérna er einmitt hægt að ná fram markmiðum um einfaldara Ísland og betri stjórnsýslu. Það blasir við mér og ég tel að það ætti að vera eitt af fyrstu verkum ríkisstjórnarinnar til þess að ná fram markmiðum sínum.