132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Afleiðingar hlýnunar og viðbrögð við þeim.

156. mál
[18:09]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þessi svör og heyri að unnin hefur verið þó nokkur vinna við undirbúning á þessu og skýrslur liggja fyrir. En ég vil leggja áherslu á að hagsmunir okkar eru mjög stórir í þessum efnum. Ég fagna því að við munum vinna með Norðmönnum því að þeir hafa haft verulegar áhyggjur af þessari þróun, sérstaklega hvað varðar sjávarútveginn og fiskvinnsluna, og tala iðulega um hversu mikil hætta sé þarna sá ferðum ef eitthvert óhapp verður í hafi vegna mengunarslysa.

Það er rétt, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, að nú þegar eru hafnar þó nokkrar siglingar á þessum leiðum sem menn telja að muni aukast þegar hlýnun verður, þ.e. flutningar frá Norður-Rússlandi með olíu með fram Noregi og sömuleiðis til Bandaríkjanna. Ég held að þetta sé nokkuð sem við þurfum að huga verulega að því að þarna mun auðvitað verða mikil umferð um hafsvæði okkar. Þó svo að Norðmenn segi að skipakosturinn sé í þokkalegu ástandi þurfum við engu að síður að huga að því að þarna séu öruggir farkostir á ferðinni með þá viðkvæmu vöru sem um er að ræða. Ég treysti því að hæstv. ráðherra fylgist vel með þessu máli. Við ættum að taka þessi mál til frekari umræðu í þinginu þegar viðbótarupplýsingar berast til ráðuneytisins um stöðu mála því að auðvitað vitum við ekki hversu hratt hlýnunin gengur fyrir sig og hvernig ástandið verður við það.