132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Kyoto-bókunin.

281. mál
[18:29]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hér er á ferðinni óvenjuleg fyrirspurn. Það er rétt að árétta í upphafi, þar sem hv. þingmaður Mörður Árnason virðist ekki vita það, að ráðherra verður ekki krafinn svara í fyrirspurn á Alþingi um hvort hann sé sammála orðum annarra manna. Ráðherra ber hins vegar samkvæmt 49. gr. þingskapa að svara fyrir þau mál sem hann ber ábyrgð á. Það var satt að segja ótrúlegt og óvenjulegt að heyra hér strax í upphafi öfgakenndan málflutning hv. þingmanns Marðar Árnasonar. En fyrst fyrirspyrjandi kýs að spyrja með þessum hætti er rétt að setja það í samhengi sem spurt er um. Í ræðu sinni á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins lagði fyrrverandi formaður flokksins áherslu á mikilvægi umhverfismála, mikilvægi vísindalegrar þekkingar og rannsókna og tók sérstaklega fram að við ættum öll að vera umhverfissinnar. Svo virðist sem að hv. þingmaður Mörður Árnason hafi ekki lesið þessa ræðu. Hann sagði að Kyoto-bókunin byggði á ótraustum vísindalegum grunni. (Gripið fram í.) En hann sagði líka að viðleitnin með sáttmálanum væri örugglega í rétta átt.

Ég held að allir hljóti að vera sammála um að enn ríkir talsverð óvissa um loftslagsmálin sem sést best á því að skoðanir vísindamanna á ýmsum atriðum eru skiptar og taka einnig breytingum eftir því sem tíminn líður og þekkingin á málefninu eykst. Grunnurinn í þessum málaflokki styrkist sífellt með auknum rannsóknum. Ég tel einnig mikilvægt að viðurkenna að þekking á loftslagsmálum er ekki fullkomin og þess vegna er brýnt að leggja þunga áherslu á rannsóknir til að efla þekkingu okkar á þessum mikilvægu málum. En um leið og ástæða er til að viðurkenna að þekkingin er enn ófullkomin tel ég að flestir geti verið sammála fyrrverandi formanni Sjálfstæðisflokksins um að viðleitnin með Kyoto-bókuninni er í örugglega í rétta átt enda vorum við Íslendingar í fararbroddi þeirra þjóða sem undirrituðu og fullgiltu Kyoto-bókunina undir styrkri forustu fyrrverandi hæstv. forsætisráðherra Davíðs Oddssonar. Stefna ríkisstjórnar Íslands er að fylgja henni eins og fyrirspyrjanda hlýtur að vera kunnugt. Það eru hinar óhrekjanlegu staðreyndir málsins.

Um þær tvær skýrslur sem fyrirspyrjandi nefnir sérstaklega, skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og loftslagsskýrslu Norðurskautsráðsins frá því í fyrra, er það að segja að ég tel að mikil og vönduð vinna hafi farið í undirbúning þeirra og að mikill fengur sé af skýrslum af þessu tagi. Lokið var við loftslagsskýrslu Norðurskautsráðsins undir forustu okkar Íslendinga í ráðinu og niðurstöður hennar voru kynntar á ráðherrafundi í Reykjavík fyrir réttu ári. Þar var unnið mikið og gott verk sem ég er stolt af fyrir okkar hönd.

Skýrslur sem þessar eru það sem við höfum mest byggt á í þessum málaflokki. Við ættum hins vegar ekki að gefa í skyn, eins og mér virðist fyrirspyrjandi gera, að allt sem þar stendur sé hafið yfir vafa og að engin álitamál séu fyrir hendi. Það dettur engum í hug, allra síst vísindamönnunum sjálfum sem hafa unnið þessar skýrslur, og í skýrslunum er víða komið inn á óvissuna sem ríkir í þessum efnum sem er einmitt ástæða þess að við þurfum á frekari rannsóknum að halda. Þetta hljóta allir að gera sér ljóst. En þann 28. nóvember til 9. desember næstkomandi verður 11. aðildarþing loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna haldið í Montreal í Kanada. Fundurinn verður jafnframt fyrsti aðildarfundur Kyoto-bókunarinnar. Ég ætla í seinni ræðu minni að koma frekar inn á þau mál.