132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Spilafíkn.

99. mál
[18:55]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Hallvarðsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég minnist þess á haustdögum 1993 að miklar umræður urðu hér um spilakassa vegna áhuga björgunarsveita og fleiri aðila sem vildu fá að reka spilakassa. Miklar umræður urðu á þinginu og þess þá getið að aðilar hefðu komið sér saman um að skapa sérstaka leið í gegnum SÁÁ sem átti að vera til að „affíkna“ spilafíkla. Það vakti mikla athygli og mikil umræða var í þinginu um málið og til hvers það gæti leitt.

Við stöndum frammi fyrir því að hluta af tekjum ríkissjóðs vegna áfengissölu og tóbakssölu hefur verið varið til þess að koma með fyrirbyggjandi leiðir og vinna markvisst að því að leiða fólk frá þessu og grípa þá inn í ef um ofnotkun er að ræða.

Svo hefur raunin orðið líka með spilakassana að of margir spilafíklar hafa ánetjast spilakössunum og því tel ég ástæðu til að leggja fram eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra:

1. Hve margir hafa farið í meðferð vegna spilafíknar á sl. þremur árum, annars vegar hjá SÁÁ og hins vegar á geðdeild Landspítalans eða öðrum stofnunum?

2. Hvernig er skiptingin eftir kynjum og hvernig er aldurssamsetningin?

3. Hver hafa úrræðin verið og hvað varir meðferð að jafnaði lengi?

4. Hvers konar spilamennska er helsta orsök spilafíknar?

5. Hve margir hafa náð bata á fyrrnefndu tímabili?