132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Rafræn sjúkraskrá.

257. mál
[19:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valdimar L. Friðriksson) (Sf):

Frú forseti. Ég kveð mér hljóðs til þess að afla mér upplýsinga um rafræna sjúkraskrá. Það hefur orðið mikil þróun frá því að landsmenn fóru að nýta sér netið manna á milli og líka að nýta sér það til að bæta aðgengi að heilbrigðisþjónustu og upplýsingum. Þann 22. mars 2001 var fyrsti rafræni lyfseðillinn sendur frá lækni í apótek. Nú þegar er í notkun á Landspítala – háskólasjúkrahúsi stafrænt myndgeymslukerfi og næst er það þá væntanlega rafræn sjúkraskrá.

Rafræn sjúkraskrá mun þjóna bæði hagsmunum sjúklinga og samfélagsins og auka gæði þjónustunnar. Hún er að mörgum talið eitt brýnasta verkefnið á sviði heilbrigðismála og ein af forsendum þess að við höldum áfram því forskoti sem við höfum varðandi gæði þjónustunnar. Hún mundi taka við hefðbundnum pappírsskrám á ýmsan hátt bæði hvað varðar nauðsynlegt aðgengi að upplýsingum fyrir þá er veita sjúklingi meðferð og hvað varðar öryggi gagnanna varðandi misnotkun.

Mér skilst að nefnd hafi verið að störfum. Því spyr ég, virðulegur forseti:

Hyggst ráðuneytið koma á rafrænni sjúkraskrá á Landspítala – háskólasjúkrahúsi? Ef svo er, hvernig gengur það verk og hvenær er áætlað að því ljúki, ef því getur lokið?