132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:18]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Það er sannarlega tilefni til að gera athugasemd en helst ætti hún að vera í lengri kantinum. Ég var yfir mig hissa þegar ég heyrði svar hæstv. ráðherra. Fyrir liggur úttekt á Byggðastofnun, en hvar liggur hún fyrir? Hvar er hún aðgengileg okkur sem höfum m.a. það hlutverk með höndum að setja lög um byggðastefnuna? Jú, ofan í skrifborðsskúffu hæstv. ráðherra. Hv. þm. Anna Kristín Gunnarsdóttir spyr: Hvar geta þingmenn fengið að sjá þetta? Þá svarar hæstv. ráðherra: Niðurstöðurnar liggja fyrir í iðnaðarráðuneytinu og þar geta þingmenn fengið að sjá þær. Ég spyr, frú forseti: Eru þetta vinnubrögðin sem á að sýna í málinu? Við sem berum hag landsbyggðarinnar fyrir brjósti og viljum reyna að vinna henni vel viljum beita þessari stofnun og við viljum breyta og bæta hana. En að sjálfsögðu þurfum við gögn eins og þessi í hendurnar. Þá kemur í ljós að hæstv. ráðherra situr bara á þeim í ráðuneytinu. Ég verð að lýsa mikilli undrun á þessu, frú forseti.