132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:20]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Ég verð einnig að lýsa yfir mikilli undrun með þessi svör. En í sjálfu sér ætti maður vera farinn að venjast skrýtnum svörum frá hæstv. ráðherra þegar verið er að ræða um byggðamál, því alltaf er hún að batna og alltaf fer staða landsbyggðarinnar batnandi. En fólkið á landsbyggðinni, frú forseti, skynjar hlutina ekki þannig. Alls ekki. Það er alltaf verið að lofa einhverju en það er jafnóðum svikið. Hvað hefur hæstv. ráðherra oft lofað niðurgreiðslum á flutningi á landsbyggðina? Ég vonast til að hæstv. ráðherra svari því. Eða hverju hefur hún lofað, t.d. með orkuverð? Það átti ekki að hækka. En fólk er að sjá tugi prósenta hækkun. Mér finnst þetta vera óþolandi og einnig að geta ekki komið hreint fram og svarað spurningum heldur er vísað út og suður eins og hæstv. ráðherra gerir æ ofan í æ. Mér finnst þetta vera fyrir neðan allar hellur, frú forseti.