132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

190. mál
[19:22]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Anna Kristín Gunnarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Valgerði Sverrisdóttur svörin. Ég verð að segja að ég bætist í hóp þeirra sem hafa lýst sig undrandi á því að umrædd skýrsla skuli liggja í iðnaðarráðuneytinu og þingmönnum ekki gerð grein fyrir því að vinnunni sé lokið. Það var í rauninni tilviljun að ég spurði í þessa vegu því það hvarflaði ekki að mér annað en að okkur yrði gert ljóst um leið og úttektin væri tilbúin hvar hana væri að finna og ég hélt því að vinnunni væri í rauninni ekki lokið.

Það liggur alveg ljóst fyrir að á mörgum svæðum landsins mun enginn markaður eða almenn fjárhagsstofnun koma til móts við íbúana eins og þörf er á. Ég þekki mörg dæmi þess að bankar hafa ekki treyst sér til að koma til móts við atvinnufyrirtæki sem þó hafa staðist mat vegna þess að aðalbankinn í Reykjavík tekur fram fyrir hendur útibúanna þegar til kastanna kemur og neitar um fyrirgreiðslu. Enda eru íbúar á þeim sömu svæðum ánægðir með fyrirgreiðslu Byggðastofnunar en þurfa hins vegar að greiða hærri vexti þar en gerist á almennum markaði. Það er mjög brýnt að úr fjárhagsvanda stofnunarinnar verði leyst og henni gert kleift að koma til móts við íbúa á landsbyggðinni með uppbyggingu atvinnu á svæðum sem eiga erfitt. Það auðveldar ekki vinnuna við það ef ekki er gert viðvart áður en vinnu við fjárlög lýkur og setið er á skýrslum niðri í skúffum í ráðuneytinu þangað til verður of seint að vinna hlutina á eðlilegan hátt. Hægt er að vinna að málinu núna áður en gerð fjárlaga lýkur en annars þarf að fara með þetta eftir óeðlilegum (Forseti hringir.) leiðum, hugsanlega inn í fjáraukalög sem er ekki til fyrirmyndar.