132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Ábyrgð Byggðastofnunar.

234. mál
[19:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég hef ákveðið að beina fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra og hún hljóðar svo: Hver er ábyrgð Byggðastofnunar á fyrirtækjum sem hún á hlutabréf í?

Þessi spurning hljómar undarlega fyrst. En eftir reynslu mína og upplifun í sumar og alveg fram á haust af störfum í byggðamálum er vel þess virði að spyrja þeirrar spurningar, vegna þess að á Vestfjörðum í litlu byggðarlagi kom upp sú staða sem er ekki einstök, heldur er það sagan sem gerðist á Bíldudal í sumar þegar fiskvinnslunni var lokað. Það gerðist vegna þess að búið er að selja allar aflaheimildir í burtu vegna kerfis sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn hafa staðið vörð um. Svo einkennilega vill til að Byggðastofnun á 30% hlut í fiskvinnslunni sem stendur þarna höllum fæti og á mann í stjórn. Haldinn er fundur með þingmönnum kjördæmisins og þegar reynt er að fá einhverjar upplýsingar um stöðu fyrirtækisins eða framtíðarstöðu og horfur í atvinnumálum fást engin svör. Það sem meira er, engin svör fást frá Byggðastofnun.

Ég hefði talið að ef byggðamálaráðherra væri með hugann við málið hefði hún auðvitað beitt sínum manni í stjórn og til að koma upplýsingum til kjörinna fulltrúa fólksins um stöðuna í byggðunum. Mér finnst það vera stórundarlegt. Ef maður ber saman vinnubrögð hæstv. ráðherra annars vegar í Norðvesturkjördæminu þar sem hlutirnir eru látnir danka endalaust og hins vegar í sínu kjördæmi, þá er allt önnur staða. Þá eru hlaupið til með mörg hundruð milljónir í fyrirtæki. Ég er ekki að segja að það sé slæmt en mér finnst að hæstv. ráðherra ætti einnig að horfa til Vestfjarða. Mér finnst vera kominn tími til að hæstv. ráðherra segi frá því hvort hún hafi gengið eftir því að fulltrúi hennar í stjórn hafi kannað stöðuna og hvers vegna hún hafi þá ekki í ósköpunum komið því áleiðis til okkar þingmanna kjördæmisins. Það tók Atvinnuþróunarfélag Vestfjarða marga mánuði að fá upp hver staðan væri í fyrirtækinu sem um ræðir. Og maður spyr: Hvers vegna er þetta svona? Þá leitar maður svara í fyrri verkum ráðherrans. Maður sér það á heimasíðu ráðherrans, þar kemur einfaldlega fram að hún segir að það eigi ekki endilega að vera að föndra við sjávarbyggðirnar. Þetta er kannski hluti af stefnu ráðherrans, hún telur bara að þetta komi sér ekki við og þetta sé einfaldlega föndur ef hún beitir sér fyrir því að sjávarbyggðirnar fái að nýta náttúruauðlindirnar sem eru við bæjardyrnar.