132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Ábyrgð Byggðastofnunar.

234. mál
[19:30]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Um heimild Byggðastofnunar til þátttöku í hlutafélögum er fjallað í 18. gr. reglugerðar um Byggðastofnun nr. 347/2000. Þar kemur fram að fjárhagsleg fyrirgreiðsla stofnunarinnar skal almennt miðast við að stofnunin sé ekki beinn þátttakandi í atvinnurekstri. Þó er stofnuninni heimilt að taka þátt í félagi með allt að 30% hlutafjárframlagi ef ríkar ástæður eru til að mati stjórnar stofnunarinnar.

Um ábyrgð, réttindi og skyldur hluthafa gilda almennar reglur hlutafélagaréttarins, samanber lög um einkahlutafélög, nr. 138/1994 og lög um hlutafélög, nr. 2/1995.

Þar sem hv. þingmaður fjallaði fyrst og fremst um eitt ákveðið fyrirtæki vil ég taka fram að mér ekki heimilt að fjalla um einstök fyrirtæki opinberlega. Þegar hv. þingmaður talar um að ég eigi fulltrúa í stjórn Byggðastofnunar skipa ég vissulega stjórn Byggðastofnunar en mér er hins vegar ekki heimilt að hafa formleg afskipti af einstökum málum sem þar eru tekin til meðferðar heldur er það stofnunin sjálf, sjálfstæð stofnun, sem leysir þau eftir því sem henni þykir mögulegt og rétt hverju sinni.

Ég held að hv. þingmaður ætti að kynna sér það á Vestfjörðum hvort ég hafi ekki komið þar nokkuð að málum. Ég þori að fullyrða hér að ég sinni öllu landinu þó ég sé þingmaður eins kjördæmis. Ég hef komið að málefnum Vestfjarða í mörgum tilfellum og ekki síst í sambandi við þann vaxtarsamning sem þar er í gildi og er þegar farinn að skila árangri. Þetta eru náttúrlega dylgjur sem ekki eru svara verðar.